Fréttir

Total-hópurinn keppir í TrackMan hermum GKG
Einar Þorsteinsson er lengst til hægri í efri röð.
Þriðjudagur 20. febrúar 2024 kl. 17:34

Total-hópurinn keppir í TrackMan hermum GKG

Inniaðstaða golfara hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum með tilkomu golfherma. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar er með eina af flottari inniaðstöðunum sem völ er á og eru þeir fjölmörgu golfhermar sem í boði eru, þéttbókaðir alla vikuna yfir dimmustu mánuðina. Fjölmargir golfhópar koma saman og keppa, Total hópurinn er einn þeirra. Félagarnir höfðu hist á sumrin til að spila saman og hafa verið fastagestir á veturna í hermunum allt frá upphafi. Einar Þorsteinsson er einn af forsprökkum hópsins.  
Hvenær byrjuðuð þið að hittast í hermum á veturna og hvers vegna? 

Við höfum spilað í hermunum frá haustinu 2016. Skömmu eftir að fyrstu hermarnir komu þá prófuðu nokkrir okkar að bóka tvo herma til að halda mönnum ferskum yfir veturinn. Við vorum að velta fyrir okkur hvort þetta yrði eitthvað sem við gætum hugsað okkur að spila mögulega aðra hverja viku. Viku síðar bókuðum við alla hermana þar sem nú eru hermar 1-4 og höfum haldið vikulegum takti utan tímabils frá því. Innitímabilið byrjar venjulega eftir miðjan október og stendur fram í lok apríl eða þangað til útigolfið er byrjað. Alltaf er spilað á mánudögum sem hefur gert það að verkum að upphafsdagur vikunnar á þessum dimma tíma yfir veturinn er orðinn skemmtilegasti dagur vikunnar.  

 

Hvað eruð þið venjulega margir í hermunum? 

Fyrst þegar við byrjuðum þá vorum við fjórir í hermi, fjórir hermar og færri komust að en vildu. Mikið fjör með 16 hressa samankomna í tiltölulega litlu herbergi. Í samkomutakmörkunum samhliða covid þá þurftum við að leika af fingrum fram, lékum tvöfalda umferð á kvöldi, tveir í hermi og fljótari að spila. Eftirspurnin minnkaði ekkert, heldur hið gagnstæða. Síðan þá höfum við verið að vinna með þrjá í hermi í mesta lagi og vera þá í skemmri tíma.  

 

Hvaða fyrirkomulag spilið þið eftir? 

Venjulega spilum við höggleik með forgjöf en leikfyrirkomulag hefur þróast töluvert samhliða því sem tæknin hefur þróast. Fyrst notuðum við útiforgjöf en síðan varð ljóst að við þyrftum að huga að okkar eigin forgjafarkerfi sem við notuðum nokkuð lengi. Frá því Trackman forgjöf kom til sögunnar höfum við verið að nota það kerfi og líkar vel. Í haust þá höfum við verið að prófa okkur áfram með liðagolf, betri bolta eða scramble, sem hefur gefið þessu aðeins léttara yfirbragð.  

 

Hvað hittist þið oft og hvað eruð þið lengi í einu? 

Hópurinn spilar vikulega á mánudögum. Erum með tíma bókaðan sem er um þrír tímar í lok dags. Yfir tímabilð höldum við mótaröð þar sem hvert mót fyrir sig telur samkvæmt ákveðnu fyrirkomulagi. Í verðlaun fyrir sigur á mótaröðinni er forláta jakki sem sigurvegarinn fær að halda fram á næsta tímabil.  Fyrstu tímabilin vorum við með herma 1-4 en síðustu tvö ár þá höfum við stækkað hópinn aðeins og erum nú með herma 9-16 bókaða einu sinni í viku.  

 

Hver er ykkar upplifun í hermum GKG? 

Við erum mjög ánægðir með innigolfið í GKG. Það hefur gert það að verkum að íþróttin er stunduð allt árið um kring. VIð höfum séð miklar framfarir hjá hópnum við það að meðhöndla kylfurnar með reglubundnum hætti yfir haust og vetur í stað þess að taka kylfurnar fram í Masters viku í apríl eins og tíðkaðist hjá mörgum. 

 

Eigið þið uppáhalds velli? 

Engir sérstakir vellir koma upp í kollinn. Höfum verið mjög duglegir að spila þá velli sem eru í boði í kerfinu en þrátt fyrir að hafa verið nokkuð duglegir þá eigum við ennþá tæplega 150 velli óspilaða.  

 

Eitthvað að lokum? 

Við höfum spilað 190 umferðir í hermunum til þessa. Skráðir hringir eru yfir 2700 talsins og slegin hafa verið tæplega 218 þúsund högg, sum eftirminnilegari en önnur. Öllu þessu er skilmerkilega haldið til haga í Excel skjali og í lok tímabils farið yfir helstu tölfræði leikmanna. Síðustu ár höfum við verið að nota mótakerfið í Trackman sem einfaldar framkvæmdina gríðarlega. Ólíkar púttreglur hafa verið það sem hafa vakið hvað mest viðbrögð hjá hópnum. Sumir voru mjög góðir að pútta með random púttreglu, öðrum til mikillar óánægju. Þetta hefur lagast í Trackman kerfinu með gimmie hringnum. 

Arnór Gunnarsson í flottri sveiflu.
Hola í höggi!
Sveinn Ögmundsson á teig!
Sigurður Jónsson 50 metra frá gríni og setti sig eflaust inn fyrir þrjá metrana sem hægt er að hafa sem gefið pútt.