Fréttir

Tiger Woods snýr aftur á golfvöllinn í næstu viku
Tiger og Charlie fyrir nokkrum árum.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
fimmtudaginn 9. desember 2021 kl. 08:31

Tiger Woods snýr aftur á golfvöllinn í næstu viku

Eftir blaðamannafund Tiger Woods í síðustu viku í tengslum við mót sitt Hero World Challenge voru margir uggandi um framtíð hans á golfvellinum. Sjálfur sagði hann ýmislegt til að draga úr væntingum fólks um endurkomu og talaði um að þegar þar að kæmi yrðu mótin færri en áður.

Síðustu daga hafa verið birt myndbönd af honum við æfingar hér og þar. Í gær tilkynnti svo Tiger að hann myndi leika við hlið sonar síns Charlie í PNC mótinu í Orlando í næstu viku. Þetta verða að teljast gríðarlega jákvæðar fréttir þótt ekki sé um eiginlegt PGA mót að ræða og benda til þess að hann sé lengra kominn í endurhæfingunni en áður var talið.

Ljóst er að mótið sem fer fram 18. og 19. desember mun fyrir vikið fá mikla athygli. Það verður frábært fyrir golfáhugamenn að sjá Tiger Woods aftur í keppni og við hæfi að hann stigi fyrsta skrefið í endurkomunni við hlið sonars síns.