Fréttir

Þórdís Geirs flaug honum beint í holu á Hvaleyrinni
Holubarmurinn skemmdist lítillega þegar boltinn small í
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 28. júní 2022 kl. 17:47

Þórdís Geirs flaug honum beint í holu á Hvaleyrinni

Þórdísi Geirsdóttur úr GK halda engin bönd þessa dagana. Hún sigraði á þriðja mótinu í röð á ICEWEAR mótaröðinni á sunnudaginn var en hún hefur sigrað á fjórum af fimm mótum á keppnistímabili mótaraðarinnar til þessa. Þórdís hefur lengi verið öflugur kylfingur og er fyrrum Íslandsmeistari í golfi. Þá hefur hún unnið sjö Íslandsmeistaratitla í röð í flokki 50 ára og eldri.

Þórdís greindi frá því á samfélagsmiðlum í gær að hún hafi flogið boltanum beint í 10. holuna á Hvaleyrinni.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Hún sagði í stuttu spjalli við kylfing.is að hún hafi slegið með fleygjárni af 10. teig og svo hafi svoleiðis glumið í stönginni. Draumahögg Þórdísar í gær er það fimmta á ferlinum og í annað sinn sem hún flýgur honum beint í holu.

„Ég flaug honum beint í á Bergvíkinni í Sveitakeppni GSÍ 2013, níu árum eftir að, Sigurberg sonur minn gerði nákvæmlega það sama. Ég hef líka farið holu í höggi á 4. braut á Hvaleyrinni og svo tvisvar erlendis; á Benidorm og í Portúgal. Ég á þó eitt draumahögg eftir en það er á 17. holunni í Eyjum.“

Þórdís Geirsdóttir árið 2013 með boltann, sem flaug beint í holu á Bergvíkinni

Þórdís hefur keppnisrétt á Íslandsmótinu í golfi sem fyrrum Íslandsmeistari eftir breytingu á reglugerð þar um á síðasta ári. Íslandsmótið fer einmitt fram í Vestmannaeyjum í ágúst og segist hún stefna á Eyjar.

„Það þýðir ekkert annað en að setja stefnuna á Eyjar og reyna við 17. holuna.“