Fréttir

Thorbjorn Olesen sýknaður af ákæru um kynferðislega áreitni
Thorbjorn Olesen var sýknaður af ákærum um kynferðislegt áreiti og ofbeldisfulla hegðun í London í gær.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
fimmtudaginn 9. desember 2021 kl. 08:54

Thorbjorn Olesen sýknaður af ákæru um kynferðislega áreitni

Danski kylfingurinn Thorbjorn Olesen var í gær sýknaður af ákæru um kynferðislegt áreiti í flugi frá Bandaríkjunum til Bretlands árið 2019. Kviðdómur í málinu tók sér aðeins um klukkustund til að komast að niðurstöðu í málinu.

Olesen var sakaður um að hafa gengið berserksgang um borð í fluginu og meðal annars áreitt flugfreyju kynferðislega með því að grípa um brjóst hennar. Að auki átti hann að hafa verið ofbeldishneigður og hafa kastað af sér þvagi yfir sæti annars farþega á fyrsta farrými.

Olesen sýndi miklar tilfinningar í dómssal þegar dómurinn var kveðinn upp. Í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum baðst hann innilega afsökunar á hegðun sinni en sagðist einnig ekki muna neitt eftir fluginu vegna áfengis og lyfjanotkunar.

Lögmaður Olesen sagði að ef hann hefði verið fundinn sekur hefði ferli hans sem atvinnukylfings verið lokið. Olesen var settur í bann á Evrópumótaröðinni eftir að hann var handtekinn 29. júlí 2019 en banninu var aflétt í júlí síðastliðnum þar sem rannsókn málsins hafði dregist á langinn.

Olesen sem lék með liði Evrópu í Ryder bikarnum árið 2018 var við handtökuna í 62. sæti heimslistans en hefur fallið alla leið í 432. sætið síðan.