Fréttir

Stricker leiðir á fyrsta risamóti ársins
Steve Stricker. Ljósmynd: golfsupport.nl
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 13. maí 2022 kl. 16:35

Stricker leiðir á fyrsta risamóti ársins

Regions Tradition hófst á öldungamótaröðinni í Bandaríkjunum í gær

Regions Tradition, fyrsta risamót ársins á öldungamótaröðinni í Bandaríkjunum hófst í gær í Birmingham í Alabama. Það var Bandaríkjamaðurinn, Steve Stricker, margfaldur meistari á PGA-mótaröðinni og þrefaldur risamótsmeistari á öldungamótaröðinni sem lék best á fyrsta hring í gær.

Stricker lék skollalausan hring og kom í hús á 65 höggum eða á 7 höggum undir pari, tveimur höggum betur en Spánverjinn litríki og margfaldi meistarinn á PGA-mótaröðinni, Miguel Angel Jimenez.

Meðal þátttakenda á mótinu er hinn litríki Bandaríkjamaður og tvöfaldi risamótsmeistari, John Daly. Daly lék fyrsta hringinn á fjórum höggum undir pari, rétt eins og Suður-Afríkumaðurinn og fjórfaldi risamótsmeistarinn, Ernie Els.

Staðan á mótinu

Stricker, sem leiddi Ryder-bikarlið Bandaríkjanna til sigurs á Whistling Straits í fyrra, lagðist inn á spítala vegna veikinda í tvær vikur í nóvember á síðasta ári og missti talsverða þyngd. Hann lék á sínu fyrsta móti á öldungamótaröðinni eftir veikindin í lok apríl.

Annar hringurinn hófst núna rétt fyrir þrjú í dag. Stricker er nýfarinn út á annan hringinn.