Örninn útsala 25
Örninn útsala 25

Fréttir

Stáltakkarnir björguðu MacIntyre
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 16. júlí 2024 kl. 20:56

Stáltakkarnir björguðu MacIntyre

Skotinn Bob MacIntyre hafði heppnina með sér í lokahringnum á Opna Skoska mótinu sem lauk sl. sunnudag. Stáltakkarnir á golfskónum hans komu þar við sögu. Hann fékk að lyfta boltanum í þykkum karga á 14. holu og láta hann falla á miklu sláanlegri stað sem hjálpaði honum að fá örn, tvo undir pari.

MacIntyre var þremur höggum frá forystusauðnum þegar hann var á 14. holu sem er par 5. Upphafshöggið endaði hægra megin í þykkum karga en þegar Skotinn var að taka æfingasveiflu fann hann og heyrði að hann stóð á „sprinkler“ (vökvunarloki.) Það hefði líklega ekki gerst nema af því að hann var í gaddaskóm, þ.e. takkarnir undir skóm hans voru stáltakkar en ekki úr gúmmíi eins og langflestir nota nú orðið.

Bob kallaði á dómara sem staðfesti hans grun. Niðurstaða dómara var sú að Bob fékk að láta boltann falla nokkuð frá upphaflegri legu sem kom Skotanum til góða.

Eftir að hafa látið boltann falla sló hinn örvhenti Skoti magnað högg af 220 metra færi. Boltinn endaði um 4 metra frá holu og kappinn setti púttið í holu fyrir erni (-2) og jafnaði þannig við Adam Scott sem var í forystu. Fugl á lokabrautinn tryggði heimamanninum svo sigur en síðast sigraði skoskur kylfingur á Opna skoska árið 1999 þegar Colin Montgomery vann.