Slátrunin heldur áfram
Annar dagur Ryder fór eins af stað og sá fyrsti, Evrópumennirnir með algera yfirburði. Þegar kylfingur.is vaknaði kl. sjö voru þrjár stórar bláar tölur en ein rauð. Þannig hélst staðan út leikina, 3-1 fyrir Evrópu og staðan því 9 1/2 - 2 1/2.
Leikur 1 Rory McIlroy og Tommy Fleetwood á móti Justin Thomas og Jordan Spieth.
Eins og sjá mà á skorkortinu var ekki mikið um gráar tölur (að hola falli). Fleetwood Mac tók fyrstu þrjár en svo óx Könunum ásmegin. Þeir tóku holur 13 og 14 og minnkuðu muninn í eina holu, Evrópa svaraði á 15 en Kanarnir tóku svo 16. holu og aftur einnar holu munu, frábær leikur! Kanarnir lentu svo í veseni á 17. holu, leikurinn virtist vera klárast en Tommy átti lélegt pútt en Rory setti langt pútt niður fyrir pari og sigur því staðreynd, 2/1
Leikur 2 Viktor Hovland og Ludvig Aberg á móti Scottie Scheffler og Brooks Koepka.
Skandinavíu-frændurnir héldu áfram á nákvæmlega sömu braut og í gær, unnu fyrstu fjórar holurnar og áttu sjö holur eftir fyrri níu. Eftir tíu holur var komið “dormý 8” (fyrir þá sem ekki vita, andstæðingurinn þarf þá að vinna allar holur til að jafna leikinn), Evrópa vann holuna og því leikinn 9/7, lygilegar tölur!
Leikur 3 Shane Lowry og Sepp Straka á móti Max Homa og Brian Harman.
Eini leikurinn þar sem Kanarnir sáu til sólar og vel það en eftir að leikurinn hafði verið í jàrnum, duttu Homa og Harman í gang á seinni níu og unnu fyrstu þrjár holurnar, voru m.a. nálægt albatros á 12. holu. Unnu svo öruggan sigur, 4/2.
Leikur 4 John Rahm og Tyrrel Hatton á móti Patrick Cantlay og Xander Schauffele.
Líklega slappasta spilamennskan í þessum leik. Liðin fengu ekki fugl fyrr en á 5. holu. Evrópa var svo komin þrjá holur upp en Kanarnir neituðu að gefast upp, tóku 12-14. holu og jöfnuðu leikinn. Rahm og Hatton rönkuðu þá við sér, óheppnir að vinna ekki 15. holu, unnu 16. og svo fór Rahm næstum holu í höggi á 17. holu! 2/1
Evrópa því með ótrúlega forystu, 9 1/2 - 2 1/2 fyrir betri bolta dagsins. Ef Bandaríkin girða sig ekki almennilega í brók í dag er hætt við því að það þurfi ýkt, amerískt kraftaverk til að titillinn haldist í landi tækifæranna.