Fréttir

Skelfi-LEKt í Leirunni
Sunnudagur 28. maí 2023 kl. 20:59

Skelfi-LEKt í Leirunni

Veðurguðirnir eru í ham og leika keppnisglaða kylfinga grátt. Brösuglega hefur gengið að koma Icewear mótaröð Landssamtaka eldri kylfinga (LEK) af stað í vor. Fyrsta mótið Icewear mótið átti að fara fram um síðustu helgi í Þorlákshöfn, en því var frestað vegna veðurs til 29.maí. Annað mótið, Kaffitárs mótið varð því það fyrsta. Leikur hófst í Leirunni í morgun í 7-8 metra vindi og rigningu. Þegar leið á daginn jókst vindurinn og tekin var ákvörðun um kl. 15:00 að aflýsa mótinu. Nokkur hluti þátttakenda hafði þá þegar lokið leik í vægast sagt krefjandi aðstæðum. 

Ekki eru allir á eitt sáttir við þá ákvörðun mótsstjórnar að aflýsa leik á miðjum degi en aðrir hafa bent á að það hafi verið eina vitið þar sem m.a. 6.flötin á Hólmsvelli var orðin óleikhæf vegna bleytu.

Jón Gunnar Traustason í mótanefnd LEK skrifar Facebook síðu þeirra:

„Við í mótanefnd viljum koma því á framfæri að ástæðan fyrir því að mótið var blásið af gert í fullu samræmi við dómara mótsins, en þær voru að vindur var kominn í 11 metra og með rigningu, einnig var það mat dómarans að völlur var orðinn óleikhæfur vegna bleytu á neðri hluta, 6 grínið var td komið á flot.

Við mættum í morgun fyrir mót og þá var vindur 6-7 metrar og lítil rigning og ekkert sem sem mælti því mót að byrja mótið.

Okkur þykir leiðinlegt að þurfa blása mótið af en ákvörðun var tekin út frá heildini en ekki út frá einstaklingum.“

Golfreglurnar setja ákvörðun um að aflýsa leik alfarið í hendur mótanefnda en lesa má nánar um það í golfreglunum hér.

Það er ekki öfundsvert hlutverk að vera í mótsnefnd í golfmótum þetta vorið en kylfingar eiga hrós skilið fyrir baráttu sína við veðrið. Næsta verkefni fyrir eldri kylfinga er að þurrka búnaðinn og vera mættir galvaskir í Þorlákshöfn í fyrramálið. Vonandi slaka veðurguðirnir aðeins á. Þó ekki væri nema aðeins.