Fréttir

Sigubjörn kjörinn Íþróttamaður Fjallabyggðar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 6. janúar 2024 kl. 12:55

Sigubjörn kjörinn Íþróttamaður Fjallabyggðar

Sigurbjörn Þorgeirsson, kylfingur í Golfklúbbi Fjallabyggðar var valinn Íþróttamaður Fjallabyggðar árið 2023 en kjörið var tilkynnt í Menningarhúsinu Tjarnarborg í gær. Kiwanisklúbburinn Skjöldur og Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar standa að valinu í samstarfi við íþróttafélög innan UÍF.

Sigurbjörn hefur verið kjörinn besti kylfingurinn í Fjallabyggð mörg undanfarin ár. Hann tók þátt í fjölda móta á síðasta ári, innanlands sem utan og náði frábærum árangri. Hann keppti m.a. með landsliði Íslands 50+ á Evrópumóti og varð þar meðal efstu manna og varð í þriðja sæti í Íslandsmóti kylfinga 50+ svo eitthvað sé nefnt.

Sigurbjörn sagði tíðindin óvænt en þakkaði mest konu sinni í færslu á Facebook.

„Í kvöld var ég valinn kylfingur ársins í Fjallabyggð og í framhaldinu, mjög óvænt, íþróttamaður Fjallabyggðar.

Það er mér mikill heiður að vera valinn, sérstaklega þar sem við eigum fullt af góðu og frambærilegu íþróttafólki hér í sveitafélaginu. Vildi þakka UÍF og kiwanis klúbbnum Skildi fyrir að standa að íþróttamannskjörinu ár hvert.

Þið sem þekkið mig þá á ég eina stoð og styttu Rósa Jónsdóttir. Án Rósu minnar hefði þetta verið illmögulegt.... takk ástin mín,“ sagði Sigurbjörn í færslu sinni.

Sigurbjörn í hópi íþróttafólks frá Fjallabyggð sem var verðlaunað fyrir árangur á síðasta ári. Myndir: Albert Gunnalaugsson.