Fréttir

Scottie Scheffler langbestur á Players
Mánudagur 13. mars 2023 kl. 08:10

Scottie Scheffler langbestur á Players

Players Championship mótinu á PGA mótaröðinni lauk í gær með yfirburðasigri Scottie Scheffler. Hann lauk leik á 17 höggum undir pari, fimm höggum betri en næsti maður. Mótið var fyrir margra hluta sakir söguglegt en 25 milljónir dollara voru í boði í verðlaunafé fyrir keppendur.

Scottie Scheffler tók mest af öllum heim eða 4,5 milljónir dollara sem gera 634 milljónir króna. Hann skellti sér jafnframt á topp heimslistans þar sem Rory McIllroy náði ekki niðurskurðinum og Jon Rahm þurfti að hætta keppni vegna veikinda. Tyrrell Hatton sem setti met á síðustu 9 holunum með því að leika þær á 29 höggum, endaði í öðru sæti og fékk 2,7 milljónir dollara (384 milljónir) í sinn hlut og Tom Hoge sem var á leiðinni heim eftir fyrsta hring uppá 78 högg, lék svo á 68, náði niðurskurðinum fékk 1,5 milljónir dollara fyrir að vera jafn í þriðja sæti. Hann bætti nefnilega í á þriðja hring og setti vallarmet á TPC Sawgrass vellinum á þriðja hring þegar hann lék á 62 höggum. 

Hin víðfræga 17. braut var svolítið að stríða mönnum í síðustu ráshópunum þar sem sviptivindar voru á svæðnu og nokkur fjöldi bolta endaði í vatninu. Lokaráshópurinn átti hinsvegar ekki í neinum vandræðum. Bæði Scheffler og M.W. Lee áttu frábær högg uppað stöng. Scheffler fékk létt par og Lee setti niður fyrir fugli við mikinn fögnuð áhorfenda. Það er fáheyrt að leikmenn hafi jafn mikla yfirburði á The Players mótinu og Scheffler hafði í gær. Grunninn að sigrinum lagði hann með að fá 5 fugla í röð á holum 8 til 12. Meðal annars sló hann ofan í úr glompu og sýndi snilldar spilamennsku. Þetta var 6. sigur Scheffler á PGA mótaröðinni, en fyrir rétt rúmu ári hafði hann aldrei unnið. Scheffler heldur nú á Masters og The Players titlinum báðum á sama tíma, en það hafa aðeins Tiger Woods og Jack Nicklaus gert áður.

Sjá úrslit hér.