Fréttir

Ragnhildur og Perla Sól úr leik eftir góða baráttu
Perla Sól Sigurbrandsdóttir. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 22. júní 2022 kl. 18:40

Ragnhildur og Perla Sól úr leik eftir góða baráttu

Perla lék frábært golf í dag

Þær Ragnhildur Kristinsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR eru úr leik á Opna áhugamannamótinu sem fram fer á Hunstanton vellinum á Englandi þessa dagana.

Þær stöllur tryggðu sig áfram í 64 manna úrslit í gær, einar íslensku kvennana. Aldrei hafa Íslendingar sent jafn marga keppendur til leiks á mótið, sem er eitt af sterkustu áhugamannamótunum í heiminum í dag, eða fimm talsins. Auk þeirra Ragnhildar og Perlu Sólar léku á mótinu þær Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr GR og Andrea Björg Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir en báðar koma þær úr GKG.

Perla Sól, sem er í 544. sæti á heimslista áhugakylfinga, lék gegn hinni sænsku Ingrid Lindblad, sem er í öðru sæti á listanum. Lindblad hafnaði í 11. sæti á US Women’s Open fyrr í mánuðinum. Ragnhildur, sem er í 324. sæti á listanum lék gegn hinni þýsku Celina Sattelkau, sem er í 84. sæti á heimslistanum. Því var ljóst að þær þurftu báðar að spila mjög vel til að komast áfram í 32 manna úrslitin.

Perla Sól lenti undir í leiknum eins og kannski við mátti búast en hin sænska Lindblad var 4 upp eftir 14 holur. Perla barðist og kom til baka er hún vann bæði 15. og 16. holuna með góðum fuglum. Á 17. holunni innsiglaði hin sænska þó sigurinn, 3&1. Perla Sól lék frábært golf og var á 3 höggum undir pari á holunum 17. Viðureign Ragnhildar og Sattelkau var nokkuð spennandi en þó hafði sú þýska yfirhöndina. Ragnhildur setti niður gott pútt á 16. holu og var sú þýska þá 2 upp þegar 2 holur voru eftir. Ragnhildur komst þó ekki lengra og Sattelkau innsiglaði sigurinn á 17. holunni.

Þær Perla Sól og Ragnhildur geta báðar gengið sáttar frá borði.

Staðan á mótinu

Svipmyndir frá 64 manna úrslitunum. Umfjöllun um viðureign Perlu Sólar og Ingrid Lindblad hefst á 1:12.