Fréttir

Óvænt vitni bjargaði körfuboltakempunni Teiti Örlygssyni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 3. október 2024 kl. 14:22

Óvænt vitni bjargaði körfuboltakempunni Teiti Örlygssyni

Óvæntur áhorfandi við 9. holu á Hólmsvelli í Leiru bjargaði körfuboltagoðsögninni Teiti Örlygssyni þegar hann náði loksins draumahögginu. Teitur var einn á ferð og ef vitni hefði ekki verið á staðnum sem sá höggið hjá Teiti, hefði hann ekki fengið draumahöggið staðfest.

Alla kylfinga dreymir um að fara holu í höggi, svo einfalt er það. Martröð kylfingsins er að vera einn á ferð og ná draumahögginu því alltaf yrði hægt að véfengja söguna. 

Teitur er að reyna koma sér í golfstand áður en hann heldur til Florida og var einn að spila en sem betur fer var Ingvar Ingvarsson, meðlimur í Golfklúbbi Suðurnesja, á rúntinum og lagði bílnum þar sem Teitur sló inn á 9. holuna í Leirunni sem er par 3 hola. Teitur notaði 7 tré, fann strax að höggið væri gott og sagði við Ingvar eftir höggið að hann héldi að boltinn hafi farið í stöngina. Ingvar er greinilega heiðursmaður, sagði strax að ef boltinn hafi farið ofan í þá hefði hann orðið vitni og myndi kvitta undir höggið.

„Ég fann strax að ég hitti hann vel og svo heyrðist eins og smellur og boltinn bara skoppaði ekkert upp af flötinni. Ég varð rosa spenntur og tók video alla leiðina frá teignum og uppá flöt. Þetta var geðveik tilfinning og fagnað með kampavíni þegar heim var komið. Þetta er svo létt íþrótt,“ sagði tífaldur Íslandsmeistarinn í körfubolta og hló. 

Óborganleg viðbrögð kappans eru hér í spilaranum.

Sjá video af afrekinu