Fréttir

Okkar menn lentu í vandræðum á öðrum hring
Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 25. júní 2022 kl. 10:18

Okkar menn lentu í vandræðum á öðrum hring

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG og Andri Þór Björnsson úr GR luku leik á öðrum hring á Blot Open de Bretagne í Frakklandi í gær en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu.

Þeir lentu báðir í töluverðum vandræðum á hringnum. Guðmundur Ágúst kom í hús á 75 höggum eða á 5 höggum yfir pari og Andri Þór kom í hús á 86 höggum eða á 16 höggum yfir pari. Guðmundur var tveimur höggum frá niðurskurðinum en Andri Þór talsvert fleiri höggum frá.

Það var hinn franski, Robin Sciot-Siegrist sem leiddi mótið inn í helgina á 9 höggum undir pari.

Staðan á mótinu

Guðmundur Ágúst fékk sex skolla og einn fugl á hringnum en Andri Þór fékk einn fjórfaldan skolla, einn þrefaldan og tvo tvöfalda skolla, sex skolla og einn fugl.

Áskorendamótaröðin heldur næst til Ítalíu þar sem Italian Challenge Open hefst nk. fimmtudag. Enginn íslenskur kylfingur er skráður til leiks að svo stöddu.