Fréttir

Ný 6. flöt og þátttökumet í Öndverðarnesi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 26. ágúst 2022 kl. 14:24

Ný 6. flöt og þátttökumet í Öndverðarnesi

Tvöhundruð og tuttugu kylfingar eru skráðir til leiks í Promennt Open mótinu sem verður í Öndverðarnesi um helgina. Þetta er met hjá klúbbnum en Öndverðarnesið er einn vinsælasti golfvöllur landsins. Leikið verður á nýrri 6. flöt vallarins sem hefur verið í ræktun frá því í vor.

Gamla metið hjá GÖ í þátttökufjölda, 218 manns var frá því 2018. Í frétt frá klúbbnum segir að búið sé að loka fyrir skráningu. 

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Sumarið hefur verið gott í Öndverðarnesi, völlurinn í flottu ásigkomulagi og starfið öflugt í klúbbnum en fjölmargir félagar sem búa í nágrenninu, „Múraralandinu“, eru félagar í GÖ og eru duglegir að leika á Múraravellinum eins og hann hefur oft verið kallaður.

Síðustu þrjá daga hefur golfbolti tvívegis ratað í holu í einu höggi. Birgir Már Vigfússon sló draumahögg á 18. holu 25. ágúst. Sunnudaginn 21. ágúst sló Jón Yngvi Björnsson, GÖ, beint í holu á 18. braut. 

Framkvæmdir við gerð nýrrar 6. flatar á vellinum voru síðasta vor og var sáð í nýtt flatarstæði. Sáningin hefur heppnast vel og góður gróandi verið í flötinni í allt sumar. Í Prómennt mótinu verður leikið í fyrsta sinn á flötinni sem lítur ótrúlega vel út en dúkur sem var yfir henni var tekin nýlega.

6. flötin lítur ótrúlega vel út.

Birgir Már glaður eftir draumahögg á 18. holu.

Jón Yngvi sló í holu á 18. braut.