Fréttir

Morikawa missteig sig og Hovland sigraði
Viktor Hovland með verðlaunagripinn ásamt Tiger Woods sem stóð að baki mótinu.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 6. desember 2021 kl. 09:35

Morikawa missteig sig og Hovland sigraði

Collin Morikawa hafði fimm högga forskot fyrir lokahring World Hero Challenge mótsins sem kláraðist í gær. Með sigri hefði Morikawa komist í efsta sæti heimslistans í fyrsta sinn. 

Það varð þó fljólega ljóst að það var ekki að fara að gerast að þessu sinni. Á fyrstu sex brautum dagsins hafði Morikawa týnt tveimur boltum og var kominn fjögur högg yfir par og tveimur höggum á eftir efstu mönnum. Sannarlega ólíkt Morikawa.

Norðmaðurinn Viktor Hovland gekk á lagið og lék frábært golf. Fékk meðal annars tvo erni í röð á 14. og 15. holu og gat leyft sér að enda á tveimur skollum án þess að það kæmi að sök. Fimmti sigur Norðmannsins á tveimur stærstu mótaröðunum síðan í ársbyrjun 2020.

Scottie Scheffler endaði í öðru sæti einu höggi á eftir Hovland. Patrick Reed og Sam Burns urðu jafnir í þriðja sæti tveimur höggum á eftir Scheffler.

Lokastaðan í mótinu