Logi kjörinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar
Kylfingurinn Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja er íþróttamaður Reykjanesbæjar 2023 en hann var heitur í golfinu á síðasta ári. Logi varð klúbbmeistari GS í annað sinn, tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í golfi og endaði sem stigameistari GSÍ 2023.
Logi, til hamingju með titilinn. Síðasta ár var nokkuð gott hjá þér. Þú vannst Íslandsmeistaratitil, varðst klúbbmeistari – gerðir þú eitthvað fleira á golfvellinum?
„Já, ég varð stigameistari Golfsambands Íslands, ég komst líka í landsliðið og síðan keppti ég í úrtökumóti fyrir Nordic League og komst í gegnum það. Þannig að ég er kominn með nokkur mót á Nordic-mótaröðinni á þessu ári.“
Og heldur væntalega áfram að taka þátt í henni.
„Já, ég ætla að byrja núna hægt og rólega að fara meira út og keppa í atvinnumennsku.“
Fyrir utan Íslandsmeistaratitilinn, hvað stóð upp úr í þínu keppnisgolfi á síðasta ári?
„Það er dálítið erfitt að segja en það var eiginlega bara stigameistaratitillinn, lokamótið hjá GSÍ þar sem ég endaði í öðru sæti og náði að halda ró og klára þetta þannig að ég yrði efstur.“
Hvað er svo framundan hjá Íslandsmeistaranum í golfi?
„Ég er að fara út að kenna og í fararstjórn núna í vor. Síðan er ég bara að bíða eftir að golfsumarið byrji og fer mögulega út til Bretlands í júní og keppi á stórum mótum.“
Þú ert bara að vinna við golfið, fórstu ekki í golfkennaranámið?
„Jú, ég er í náminu núna og er búinn með eitt og hálft ár af þremur árum. Ég er bara að farastjórast og kenna smá þarna úti.“
Þannig að lífið snýst að mestu um golf og kemur til með að gera það á næstunni.
„Já, það er ekkert annað sem kemur í stað golfsins.“
Hvað ertu búinn að vera lengi í golfi? Þú varst í fleiri íþróttum áður.
„Já, ég byrjaði í fótbolta þegar ég var krakki. Ég var alltaf í fótbolta, fór síðan aðeins í handbolta en ég á stutt að sækja í golfið þannig að maður var alltaf í þessu sem krakki. Ég mætti á fyrstu golfæfinguna í janúar 2017 og varð alveg dolfallinn fyrir að æfa og keppa. Hef bara ekki hætt síðan.“
Þótt Logi hafi ekki æft golf lengi virðast hæfileikarnir liggja í genunum en faðir Loga, Sigurður Sigurðsson, varð Íslandsmeistari í golfi árið 1988.
„Það er gott að hafa þessi gen. Afi er líka margfaldur öldungameistari, Örn Ævar, frændi minn, er Íslandsmeistari – þetta er stutt að sækja.“
Heldurðu að þú toppir þessa menn eða ertu kannski búinn að gera það?
„Ég myndi segja að ég sé búinn að gera það. Nei, ég á eftir að ná aðeins lengra. Ég er mögulega að fara að keppa í sama móti og Örn Ævar keppti í og setti vallarmet, 63 högg [Örn Ævar keppti í móti á áhugamannaröðinni St. Andrews Links Trophy á Nýja vellinum í St. Andrews árið 1998]. Kannski á ég bara eftir að bæta vallarmetið, það kemur í ljós,“ sagði Logi hlæjandi að lokum.