Fréttir

Langer stigameistari í sjötta sinn - Mickelson sigraði á lokamótinu
Bernhard Langer er stigameistari PGA mótaraðar eldri kylfinga í sjötta sinn.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 15. nóvember 2021 kl. 09:56

Langer stigameistari í sjötta sinn - Mickelson sigraði á lokamótinu

Bernhard Langer er engum líkur. Í gær tryggði hann sér sigurinn á stigalista PGA mótaraðar eldri kylfinga í sjötta sinn 64 ára gamall.

Mikil spenna var í baráttunni um stigameistaratitilinn en Jim Furyk átti möguleika á að komast upp fyrir Langer með því að enda í þriðja sæti lokamótsins eða ofar. Það gekk þó ekki eftir þar sem Furyk endaði í 5. sæti og Langer því sigurvegari í sjötta sinn.

Langer endaði lokamótið í 17. sæti en hann þurfti að kljást við mikla bakverki allt mótið. Það kom þó ekki í veg fyrir það að honum tækist á þriðja hring mótsins að leika undir aldri sínum í fyrsta sinn á mótaröðinni þegar hann lék á 63 höggum.

Phil Mickelson sigraði á lokamótinu en það var hans fjórði sigur í aðeins sex mótum frá því að hann varð gjaldgengur á mótaröðina. Mickelson lék hringina fjóra á samtals 19. höggum undir pari, einu höggi betur en Nýsjálendingurinn Steven Alker og tveimur betri en David Thoms og Darren Clarke.

Lokastaðan í mótinu