Fréttir

Landsliðshóparnir á HM í Frakklandi
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 17. júlí 2022 kl. 07:29

Landsliðshóparnir á HM í Frakklandi

Ólafur Björn Loftsson, landsliðsþjálfari og afreksstjóri GSÍ, hefur tilkynnt hvaða leikmenn skipa kvenna- og karlalandslið Íslands á Heimsmeistaramóti áhugakylfinga 2022.

Heimsmeistaramótin fara fram í lok ágúst og byrjun september á vel þekktum golfvöllum í París í Frakklandi. Landsliðshópur Íslands hélt til Parísar fyrir tveimur vikum í vel heppnaða æfingaferð og lék báða vellina í undirbúningi fyrir mótið.

Heimsmeistaramót kvenna, Espirito Santo Trophy, fer fram dagana 24. til 27. ágúst nk. og Heimsmeistaramót karla, Eisenhower Trophy, fer fram dagana 31. ágúst til 3. september.

Leikfyrirkomulagið er 72 holu höggleikur. Hvert lið samanstendur af þremur kylfingum og telja tvö bestu skorin hvern dag. 

Öll liðin leika tvo hringi á hvorum keppnisvelli sem eru Le Golf National og Golf de Saint-Nom-La-Brèteche.

Sá fyrrnefndi var keppnisvöllurinn í Ryder bikarnum árið 2018 og árið 2024 verður keppt í golfi á þessum velli á Ólympíuleikunum. 

Heimsmeistaramótið er haldið á tveggja ára fresti. Vegna áhrifa heimsfaraldurs eru nú liðin 4 ár frá því Heimsmeistaramót fór síðast fram. Ragnhildur Kristinsdóttir tók þátt það ár en aðrir kylfingar taka nú þátt í sínu fyrsta HM.

Íslenska kvennalandsliðið:

Andrea Björg Bergsdóttir, Hills GC (Svíþjóð)
Hulda Clara Gestsdóttir, GKG
Ragnhildur Kristinsdóttir, GR

Íslenska karlalandsliðið:

Hákon Örn Magnússon, GR
Hlynur Bergsson, GKG
Sigurður Bjarki Blumenstein, GR