Fréttir

Kristófer Orri lék flott golf og er í forystu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 4. ágúst 2022 kl. 17:08

Kristófer Orri lék flott golf og er í forystu

Kristófer Orri Þórðarson, Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar er í forystu eftir fyrsta keppnidag á Íslandsmótinu í golfi í Eyjum. Kristófer lék mjög gott golf og lauk hringnum á fjórum undir pari. 

Fimm kylfingar eru á -2 og í þeim hópi er Íslandsmeistari 2022, Aron Snær Júlíusson úr GKG. Hann fór reyndar illa að ráðum sínum á 18. brautinni og tapaði höggi. 

Kristófer lék mjög gott golf og var nær aldrei í vandræðum. Hann fékk fugl á 4. holu og Örn eða -2 á 8. holu og munaði litlu að upphafshöggið með 3 járni færi í holu. Hann tapaði eina högginu á hringnum á 9. braut. Kristófer fékk tvo fugla á seinni níu holunum, á 10. holu og þeirri síðustu þegar hann setti niður glæsilegt 6-7 metra pútt.

Hann segir að spilamennskan hafi verið mjög góð og örugg allan hringinn. „Það skiptir máli að vera með lágt boltaflug og taka ekki of mikla áhættu. Taka sénsana þegar þeir koma og það var svolítið þannig í dag hjá mér. Ég hef verið í toppbaráttu áður en ekki leitt á Íslandsmóti þannig að það er nýtt en mjög spennandi. Ég hef æft gríðarlega vel allt þetta ár og spilaði alveg ótrúlega mikið. Ætli ég sé ekki búinn að spila hátt í 80 hringi þannig að ég vona að ég haldi bara áfram að spila vel,“ sagði Kristófer Orri.

1 Kristófer Orri Þórðarson, GKG 66 (-4)
2.-5. Bjarni Þór Sigurðsson, GK 68 högg (-2)
2.-5. Björn Óskar Guðjónsson, GM 68 högg (-2)
2.-5. Böðvar Bragi Pálsson, GR 68 högg (-2)
2.-5. Aron Snær Júlíusson, GKG 68 högg (-2)
6.-8. Svanberg Addi Stefánsson, GK 69 högg (-1)
6.-8. Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG 69 högg (-1)
6.-8. Jóhannes Guðmundsson, GR 69 högg (-1)
9.-13. Sigurbjörn Þorgeirsson, GFB 69 högg (par)
9.-13. Ragnar Már Garðarsson, GKG 69 högg (-1)
9.-13. Kristján Þór Einarsson, GM 69 högg (-1)
9.-13. Logi Sigurðsson, GS 69 högg (-1)
9.-13. Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR 69 högg (-1)

Staðan í karlaflokki.

Aron Snær Júlíusson, er jafn í 2. sæti í titilvörn sinni.