Karl tekur við af Elsu í Eyjum
Elsa Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Vestmannaeyja hefur látið af störfum eftir 23 ára starf hjá klúbbnum. Hún var heiðruð á aðalfundi GV nýlega. Karl Haraldsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri.
„Elsa hefur unnið ótrúlegt starf fyrir klúbbinn. Hún hefur gengið í öll störf innan félagsins. Elsa hefur verið driffjöður í uppbyggingu og rekstri félagsins undanfarna þrjá áratugi og er félagið lánsamt að hafa fengið að njóta krafta hennar allan þennan tíma.
Elsa var heiðruð af ÍBV hérðasambandi fyrir störf sín og fékk hún gullmerki félagsins.
Golfklúbbur Vestmannaeyja vill koma á framfæri þakklæti til Elsu fyrir óeigingjarnt starf fyrir félagið,“ segir í frétt frá GV.
Starfsemi á síðasta ári gekk vel að því er fram kom í skýrslu stjórnar. Sigursveinn Þórðarson var endurkjörinn formaður GV.
Besti kylfingur og efnilegasti kylfingar síðasta árs voru kynntir og heiðraðir. Sigurbergur Sveinsson klúbbmeistari var valin bestur og Andri Erlingsson efnilegastur.