Fréttir

Karen tók fyrsta höggið
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2024 kl. 09:36

Karen tók fyrsta höggið

Karen Sævarsdóttir, áttfaldur Íslandsmeistari í golfi, tók fyrsta höggið á Íslandsmótinu í golfi sem hófst á Hólmsvelli í morgun, á hennar gamla heimavelli en hún tók fyrst í golfkylfu í Leirunni þegar hún var fimm ára. Um 150 keppendur eru skráðir til leiks á þessu stærsta móti ársins í íslensku golfi.

Karen sló gott högg með stærstu kylfunni í pokanum og boltinn endaði á miðri fyrstu brautinni. Holuröðun á Hólmsvelli var breytt fyrir þetta mót og er fyrsta holan núna sem áður var sú níunda. Fyrstu fimm brautirnar, 1-5 á Hólmsvelli eru nú 10. til 14. Síðustu fjórar holurnar, 15-19, halda sér. Kylfingar hafa tekið þessum breytingum vel en hugmyndin var sú að færa erfiða byrjun vallarins í seinni níu hluta hringsins.

Guðfinna Sigurþórsdóttir, móðir Karenar var viðstödd opnun Íslandsmótsins og fylgdist með dótturinni slá heiðurshöggið, fyrsta högg mótsins. Guðfinna var fyrsti Íslandsmeistari kvenna í golfi en hún vann þrisvar, fyrst árið 1967. Nú verður í fyrsta sinn keppt um Guðfinnubikarinn en hann fær áhugakylfingur í kvennaflokki á besta skorinu. Bikarinn sem verður afhentur er fyrsti eignarbikarinn sem Guðfinna fékk eftir sigurinn 1967.

Hér má sjá skor keppenda á fyrsta degi.

Íslandsmeistaramæðgurnar, Guðfinna Sigurþórsdóttir og Karen Sævarsdóttir. Þær eiga saman ellefu titla.

Ingi Rúnar Gíslason tekur niður upplýsinga um búnað keppenda. Við hlið hans er bardagakappinn Gunnar Nelson en hann er kylfusveinn hjá Arnari Snæ Hákonarsyni. Gunnar er flottur kylfingur og er með 9 í forgjöf. kylfingur.is/pket.

Páll Sævar Guðjónsson „röddin“ er kynnir mótsins. Hér sést hann með Íslandsmeistaranum Loga Sigurðssyni, Dabjarti Sigurbrandssyni og Hlyni Bergssyni.