Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Íslenska piltalandsliðið í 7. sæti að loknum fyrsta keppnisdegi
Guðjón Frans Halldórsson lék prýðilega á fyrsta hring. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 6. júlí 2022 kl. 13:47

Íslenska piltalandsliðið í 7. sæti að loknum fyrsta keppnisdegi

Það er mikið um að vera hjá landsliðskylfingunum okkar í vikunni en Evrópumót landsliða fara fram hér og þar um álfuna í mismunandi aldursflokkum. Alls eru 528 keppendur á EM mótunum frá 29 þjóðríkjum.

Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að fyrstu tvo keppnisdagana er leikinn höggleikur þar sem að fimm lægstu skorin hjá hverju liði telja. Liðunum er raðað upp í riðla eftir árangri í höggleiknum, átta efstu liðin leika í holukeppni í A-riðli um Evrópumeistartitilinn og önnur lið leika um sætin þar fyrir neðan. Í B-riðli er leikið um sæti 9.-16 og í C-riðli um sætin þar fyrir neðan.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Í holukeppninni eru leiknar tvær umferðir á dag. Í fyrri umferðinni eru leiknir tveir fjórmenningsleikir (Foursome) þar sem tveir leikmenn leika gegn tveimur öðrum leikmönnum og hvort lið leikur einum bolta. Eftir hádegi eru leiknir fimm tvímenningsleikir, þar sem einn leikmaður leikur gegn öðrum leikmanni.

Piltalandslið Íslands tekur þátt á EM í 2. deild sem fram fer á Pravets vellinum í Búlgaríu. Alls eru 7 þjóðir sem taka þátt og komast þrjú efstu liðin upp í efstu deild á EM piltalandsliða 2022.

Fyrsta keppnisdegi er lokið í Búlgaríu og okkar strákar sitja eftir daginn í 7. sæti. Þeir léku samtals á skori sem telur 40 högg yfir par vallarins. Belgíska liðið leiðir eftir fyrsta hring samtals á pari. Fyrstu menn verða ræstir út á annan hringinn fyrir klukkan sex í fyrramálið á íslenskum tíma.

Staðan á mótinu

Lið Íslands skipa þeir Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG, Skúli Gunnar Ágústsson úr GA, Guðjón Frans Halldórsson úr GKG, Heiðar Snær Bjarnason úr GOS, Jóhann Frank Halldórsson úr GR og Bjarni Þór Luðvíksson úr GR.

Bjarni Þór Lúðvíksson, Jóhann Frank Halldórsson, Skúli Gunnar Ágústsson, Heiðar Snær Bjarnason, Gunnlaugur Árni Sveinsson og Guðjón Frans Halldórsson. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson