Fréttir

Íslandsmótið í höggleik á 60 ára afmælisári 2024 hjá Golfkúbbi Suðurnesja
Fjóla Viðarsdóttir og Logi Sigurðsson, kylfingar ársins hjá Golfklúbbi Suðurnesja 2023. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 30. nóvember 2023 kl. 12:08

Íslandsmótið í höggleik á 60 ára afmælisári 2024 hjá Golfkúbbi Suðurnesja

Golfklúbbur Suðurnesja fær stórt verkefni á 60 ára afmælisárinu 2024 en Íslandsmótið í höggleik verður haldið á Hólmsvelli í Leiru í júlí á næsta sumri. Íslandsmótið var síðast haldið í Leirunni árið 2011. 

Rekstur klúbbsins var í jafnvægi á árinu sem er að líða en aðalfundur GS var haldinn í golfskálanum í gær. Sveinn Björnsson var endurkjörinn formaður en hann greindi frá starfi ársins í skýrslu stjórnar. Á fundinum var lögð fram tillaga um að árgjöld fyrir árið 2024 yrðu óbreytt og fékk sú tillaga nokkra umræðu en tillagan var svo samþykkt. Forráðamenn klúbbsins sögðust vona að það myndi leggjast vel í félaga en í máli framkvæmdastjóra kom fram að klúbburinn gæti vel tekið við fleiri félögum. Þeir eru núna 687 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Engu að síður væri rúmt pláss á vellinum til að bæta í þann hóp.

Alls voru rúmlega sautján þúsund hringir leiknir á Hólmsvelli á árinu og var aukningin um 17% en völlurinn var að margra mati í besta ásigkomulagi allra valla á árinu. Framundan eru verulegar framkvæmdir, m.a. á að loka all nokkrum glompum auk þess sem horft er til annarra framkvæmda. Vökvunarkerfi er meðal atriða sem horft er til en slík fjárfesting kostar nokkra tugi milljóna.

Karl- og kvenkylfingar ársins hjá GS voru kjörnir en það voru þau Logi Sigurðsson en hann varð Íslandsmeistari í höggleik 2023 og Fjóla Viðarsdóttir en hún er fyrir nokkrum komin í afrekshóp kylfinga landsins og hefur leikið í ungmennalandsliðum og lék m.a. í alþjóðlegum mótum í útlöndum síðasta sumar.

Þá fékk Gísli Grétar Björnsson viðurkenningu fyrir að vera sjálfboðaliði ársins hjá GS en hann var meðal tilnefndra sem sjálfboðaliði ársins hjá Golfsambandi Íslands.

Afreksstarfi GS er stýrt af Sigurpáli Geir Sveinssyni, golfkennara klúbbsins og hefur það gengið vel. Aðstæður til æfinga innanhúss fara að mestu fram í gömlu slökkvistöðinni í Keflavík en þar er ágæt aðstaða, m.a. tveir golfhermar.

Golfkúbbur Suðurnesja mun fagna sextíu ára afmælinu með myndarlegum hætti á afmælisárinu en GS var stofnaður 6. mars 1964 og fyrsti formaður var Ásgrímur Ragnarsson.

Sveinn Björnsson, formaður GS afhenti Gísla Grétari Björnssyni, sjálboðaliða ársins hjáklúbbnum blómvönd.