Íslandsmótið í Eyjum er hafið - aðstæður góðar
Veðurguðirnir tóku vel á móti bestu kylfingum landsins sem hófu leik á Íslandsmótinu í golfi sem hófst í Vestmannaeyjum í morgun. Íslandsmeistarinn í karlaflokki, Aron Snær Júlíusson, GKG, var í ráshópi karla sem hóf leik kl. 10.20.
„Völlurinn hefur aðeins verið að þorna upp síðustu vikuna. Ég tók æfingahring í síðustu viku og aftur nú rétt fyrir mótið og flatirnar eru orðnar harðari. Það er bara í góðu lagi og völlurinn er í flottu standi. Mótið leggst vel í mig og ég ætla að gera mitt besta í titilvörninni,“ sagði Aron Snær áður en hann hóf leik í morgun.
Með Aroni í ráshópi eru Rúnar Arnórsson, GK, og Sigurður Arnar Grétarsson, GKG. Í næst síðasta ráshópi eru þeir Hákon Örn Magnússon, GR, Kristófer Orri Þórðarson, GKG og Andri Þór Björnsson, GR.
Bestu kvenkylfingarnir hefja leik um kl. 13. Þar er í uppsiglingu mest spennandi Íslandsmót frá upphafi því allar bestu golfkonur landsins eru með í mótinu, m.a. Atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK og Ólafía Þ. Kristinsdóttir, GR. Þá er Hulda Clara Gestsdóttir mætt í titilvörnina en húnn vann titilinn í fyrra í fyrsta skipti.

Hákon Örn Magnússon, GR.

Kristófer Orri Þórðarson, GKG.

Sigurður Arnar Grétarsson, GKG.

Andri Þór Björnsson, GR.

Rúnar Arnórsson, GK.
 
	
				 
					 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				