Fréttir

Ísland í 16. sæti að loknum fyrsta keppnisdegi á EM karla
Sigurður Bjarki Blumenstein lék á pari á fyrsta keppnisdegi á EM. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 5. júlí 2022 kl. 18:56

Ísland í 16. sæti að loknum fyrsta keppnisdegi á EM karla

Það er mikið um að vera hjá landsliðskylfingunum okkar í vikunni en Evrópumót landsliða fara fram hér og þar um álfuna í mismunandi aldursflokkum. Alls eru 528 keppendur á EM mótunum frá 29 þjóðríkjum.

Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að fyrstu tvo keppnisdagana er leikinn höggleikur þar sem að fimm lægstu skorin hjá hverju liði telja. Liðunum er raðað upp í riðla eftir árangri í höggleiknum, átta efstu liðin leika í holukeppni í A-riðli um Evrópumeistartitilinn og önnur lið leika um sætin þar fyrir neðan. Í B-riðli er leikið um sæti 9.-16 og í C-riðli um sætin þar fyrir neðan.

Í holukeppninni eru leiknar tvær umferðir á dag. Í fyrri umferðinni eru leiknir tveir fjórmenningsleikir (Foursome) þar sem tveir leikmenn leika gegn tveimur öðrum leikmönnum og hvort lið leikur einum bolta. Eftir hádegi eru leiknir fimm tvímenningsleikir, þar sem einn leikmaður leikur gegn öðrum leikmanni.

Karlalandslið Íslands leikur á hinum goðsagnakennda Royal St. George’s velli á Englandi en Opna mótið hefur 15 sinnum farið fram á þessum vellinum, síðast á síðasta ári.

Royal St. George’s á Englandi. Ljósmynd: Facebook/EGA Golf

Fyrsta keppnisdegi er lokið á Englandi og okkar menn sitja eftir daginn í 16. sæti. Þeir léku samtals á skori sem telur 13 högg yfir par vallarins. Danska liðið leiðir eftir fyrsta hring á samtals 6 höggum undir pari. Fyrstu menn verða ræstir út á annan hringinn laust fyrir klukkan sjö í fyrramálið á íslenskum tíma.

Staðan á mótinu

Lið Íslands skipa þeir Daníel Ísak Steinarsson úr GK, Kristófer Orri Þórðarson úr GKG, Sigurður Bjarki Blumenstein úr GR, Aron Emil Gunnarsson GOS, Hlynur Bergsson úr GKG og Hákon Örn Magnússon úr GR. Ólafur Björn Loftsson er landsliðsþjálfari og fylgir liðinu á mótinu. Hann er einnig afreksstjóri GSÍ.

Aron Emil Gunnarsson, Daníel Ísak Steinarsson, Kristófer Orri Þórðarson, Hákon Örn Magnússon, Hlynur Bergsson, Sigurður Bjarki Blumenstein og Ólafur Björn Loftsson landsliðsþjálfari og afreksstjóri GSÍ. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson