Ísfirðingar ánægðir með sumarið
Mikil fjölgun. Golfarar af farþegaskipum yfir sig ánægðir.
Ísfirðingar voru á meðal þeirra fyrstu sem stofnuðu golfklúbb en þar sem illa gekk að finna landsvæði undir völlinn, komst klúbburinn ekki á almennilegt flug fyrr en árið 1985. Sumarið í ár var mjög gott og var mikil fjölgun, sérstaklega tók yngri kynslóðin við sér og svo hefur komum golfferðamanna af farþegaskipum fjölgað mikið undanfarin ár. Ísfirðingar þekkja varla að spila í vindi og á vorin skreppa þeir yfir á Þingeyri og spila völlinn þar því Tungudalsvöllur á Ísafirði opnar venjulega ekki fyrr en um miðjan maí.
Kylfingur tók hús á gjaldkera klúbbsins, Neil Shiran Þórissyni. „Hljóðið í okkur á Ísafirði er bara mjög gott myndi ég segja. Þetta er eitt besta sumarið sem við höfum átt í langan tíma en talsverð fjölgun varð í klúbbnum á þessu ári. Við tókum ákvörðun með að hafa frítt í golf fyrir sautján ára og yngri og auk þess vorum við í fyrsta skipti í langan tíma með kennara, strákur sem er í PGA námi, Viktor Páll Magnússon sem er frá Flateyri. Hann kom mjög sterkur inn í starfið og hefur verið með nýliðakennsluna og aðra kennslu á sínum snærum. Við erum með sex holu par-3 völl, það hefur verið gaman að sjá fjöldann á honum í allt sumar, það segir mér að það sé búið að fjölga talsvert hjá okkur í klúbbnum. Ætli séu ekki um 110 virkir meðlimir sem spila hjá okkur en í heildina eru kannski um 200 skráðir í klúbbinn. Við sendum út u.þ.b. 150 greiðsluseðla á hverju ári og svo erum við með marga brottflutta Ísfirðinga sem eru með fjaraðild hjá okkur. Yfir hásumarið fjölgar talsvert hjá okkur en aldrei þannig að meðlimir komist ekki í golf nánast þegar þeim langar til. Það myndast nánast aldrei bið og maður er venjulega kominn á teig tíu mínútum eftir að vinnudegi lýkur. Undanfarin ár hefur komum farþegaskipa fjölgað talsvert og það er nokkuð mikið um að ferðamennirnir vilji komast í golf. Undantekningarlaust eru þessir túristar himinlifandi, þeir eru eflaust ekki vanir því að geta komist í golf þegar þeim dettur í hug og eru því kannski ekki með miklar væntingar þegar þeir koma. Við erum með leigusett og það er gaman að sjá glaða ferðamenn að loknum hring í blíðunni í Tungudal.“
Golfklúbbur Ísafjarðar var stofnaður árið 1943 og er á meðal elstu golfklúbba landsins. Það gekk ekki vel að finna landsvæði undir golfvöllinn á upphafsárum GÍ og eftir að landi var úthlutað undir flugvöll í stað golfvallar má segja að starfsemi GÍ hafi lagst af. Árið 1978 var klúbburinn endurreistur og GÍ kom sér upp bráðabirgðavöllum á nokkrum stöðum áður en land fékkst undir núverandi völl GÍ árið 1985. Frá þeim tíma hefur mikil uppbygging átt sér stað á Tungudalsvelli sem er í dag mjög skemmtilegur og fjölbreyttur níu holu golfvöllur. Við Tungudalsvöll er glæsilegt klúbbhús sem var flutt á svæðið frá Hnífsdal og tekið í notkun árið 1999. Mikið og gott útsýni er úr golfskálanum yfir Tungudalsvöll og þar er tilvalið að tylla sér niður með kaffibollann eða einn kaldan eftir golfhring á skemmtilegum velli. Ísfirðingar geta líka stundað golfið innandyra yfir vetrarmánuðina, þeir eru með inniaðstöðu inni í bænum, hafa verið með Trackman golfhermi síðan 2021 sem er mikið nýttur.
Tungudalsvöllur er innst í Tungudal, það hafa komið góðviðrisár og þá hefur verið hægt að spila á honum alla mánuði ársins en venjulega er völlurinn ekki kominn í sitt besta stand fyrr en um miðjan maí. „Völlurinn drenar sig ekki mjög vel, þess vegna getum við ekki byrjað að spila almennilega á honum fyrr en um miðjan maí. Völlurinn er inni í dal og er í skjóli má segja, það er mjög sjaldan sem maður spilar í vindi. Aðstæður seinni partinn á blíðviðrisdegi eru oft alveg einstakar myndi ég segja. Ég og mínir félagar byrjum venjulega okkar golftímabil á því að fara inn á Þingeyri sem er í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Ísafirði. Þar er æðislegur sveitavöllur og ein af holunum komst t.d. í bók sem var gefin út fyrir nokkrum árum, 50 fallegustu golfholur Íslands eða hvað hún hét. Svo eru vellir í Bolungarvík, Patreksfirði og Bíldudal svo það má segja að nóg sé af völlum hér á Vestfjörðunum,“ segir Neil.
Það eru u.þ.b. tíu ár síðan Neil byrjaði í golfi en hann lék lengi körfubolta með liði Ísfirðinga. „Ég byrjaði í golfi þegar elsti sonur minn byrjaði, hann fór mikið með afa sínum og ég sá hversu gaman var hjá þeim og ákvað því að prófa. Mig vantaði einhverja íþrótt til að svala keppnisþörfinni eftir að körfuboltaferlinum lauk og þetta hefur hentað mér vel. Ég náði strax ágætis tökum, lækkaði nokkuð fljótt í forgjöf og er í dag með í kringum tíu í forgjöf. Strákarnir mínir þrír eru komnir á kaf í golfið og nú er bara að koma konunni í sportið líka, hún hefur eitthvað verið að reyna en kannski ekki verið nógu þolinmóð. Kannski er við mig að sakast líka, ég er rokinn af stað með félögunum í staðinn fyrir að spila með henni og eigum við ekki að segja að ég stefni á að bæta það, golfið er svo frábært fjölskyldusport,“ sagði Neil í lokin.