Fréttir

ICEWEAR MÓTARÖÐ LEK hefst á Hlíðavelli
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 9. maí 2022 kl. 16:00

ICEWEAR MÓTARÖÐ LEK hefst á Hlíðavelli

Sjö mót í allt sumar auk Íslandsmóts eldri kylfinga

Fyrsta mótið á ICEWEAR MÓTARÖÐ LEK - Landssamtaka eldri kylfinga, fer fram 29. maí nk. á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar.

LEK - Landssamtök eldri kylfinga eru ætluð kylfingum 50 ára og eldri. Talið er að hópurinn telji u.þ.b. 12.000 manns eða nærri 60% skráðra félaga í GSÍ.

ICEWEAR MÓTARÖÐIN er stigamót þar sem keppt er um stigameistara LEK í karla- og kvennaflokkum 50 ára og eldri annars vegar og 65 ára og eldri hins vegar. Þá er hvert mót sjálfstætt þar sem keppt er með og án forgjafar og vegleg verðlaun veitt í bæði karla- og kvennaflokki ásamt nándarverðlaunum.

Alls telur ICEWEAR mótaröðin sjö mót í sumar auk Íslandsmóts eldri kylfinga, sem fram fer um miðjan júlí á Jaðarsvelli Golfklúbbs Akureyrar. Fyrsta mótið, ICEWEAR mótið, fer fram 29. maí nk. á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar og hið síðasta þann 27. ágúst á Korpúlfsstaðavelli Golfklúbbs Reykjavíkur.

Mótaröðin hefur notið mikilla vinsælda en eitt af því sem gerir hana jafn skemmtilega og raun ber vitni er liðakeppni. Þar stofna félagar og vinir lið og heyja harða baráttu við önnur lið. Í liðum karla eru 6 leikmenn en 4 leikmenn telja í hverju móti. Í liðum kvenna eru 4 leikmenn en 3 leikmenn telja í hverju móti.Veitt verða vegleg verðlaun fyrir 1.-3. sæti en liðakeppnin er studd af BAKO ÍSBERG. Öll mót mótaraðarinnar telja til stiga í liðakeppninni að undanskildu Íslandsmóti eldri kylfinga.

Á ICEWEAR mótaröðinni er einnig keppt um landsliðssæti en Landssamtök eldri kylfinga sendir fjögur landslið til keppni erlendis á hverju sumri. Stig eru reiknuð samkvæmt stigatöflu LEK.

Opnað verður fyrir skráningu í fyrsta mótið 16. maí nk.

Frestur til að tilkynna lið í liðakeppni mótaraðarinnar er til 26. maí nk. Við skráningu liðs skal gefa upp nafn liðs, nöfn allra leikmanna ásamt kennitölum og netfangi. Þá skal tilkynna um liðsstjóra. Skráning fer fram í gegnum tölvupóst á [email protected]

Lið Íslands sem hafnaði í 10. sæti á Marisa Sgaravatti mótinu í Tékklandi árið 2021. Ljósmynd: Facebook