Fréttir

Hulda Clara og Aron Snær eru Íslandsmeistarar 2024
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
sunnudaginn 21. júlí 2024 kl. 19:30

Hulda Clara og Aron Snær eru Íslandsmeistarar 2024

Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson, bæði úr GKG, urðu Íslandsmeistarar í golfi 2024 á Hólmsvell í Leiru. Þau sigruðu bæði í annað sinn en þau unnu sína fyrstu titla á Akureyri fyrir tveimur árum síðan.

Hörð keppni var í báðum flokkum. Hulda Clara, Ragnhildur Kristinsdóttir, Íslandsmeistari 2023 og hin unga Eva Kristinsdóttir börðust um titilinn. Þegar leið á lokahringinn var baráttan á milli Huldu og Ragnhildar. Hulda Clara þurfti að setja niður um þriggja metra pútt á lokaflötinni fyrir sigri og gerði það og vann á fimm yfir pari í heildina, höggi betri en Ragnhildur sem átti möguleika á að jafna við Huldu á síðustu þremur brautunum en náði ekki að nýta þau tækifæri. Eva Kristinsdóttir missti flugið í lokahringnum og endaði jöfn í 4. sæti með Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur.

Aron Snær og nafni hans frá Selfossi, Aron Emil Gunnarson voru í mjög spennandi keppni. Aron Emil átti högg á nafna sinn þegar fjórar holur voru eftir. Aron Emil tapaði höggi á 15. og 16. holu en Aron Snær fékk par á báðar holur. Aron Snær bætti við fugli á 17. holu og síðan fengu þeir báðir par á síðustu. Aron Snær vann því með tveimur höggum og setti nýtt Íslandsmótsmet en hann lék á 270 höggu, 14 undir pari. Aron Emil endaði á 12 undir pari. Jafnir í 3. sæti á -9 voru þeir Böðvar Bragi Pálsson úr GR og Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG.

Lokastaðan.