Fréttir

Hlynur á 1 höggi yfir pari á fyrsta hring
Hlynur Bergsson. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 23. júní 2022 kl. 01:05

Hlynur á 1 höggi yfir pari á fyrsta hring

Evrópumót áhugakylfinga á Spáni, 22.-25. júní

Evrópumót áhugakylfinga fer fram á Parador Campo de Golf El Saler í Valencia á Spáni dagana 22.-25. júní. Fulltrúi Íslands á mótinu er Hlynur Bergsson úr GKG. Hlynur kom í hús á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari vallarins og situr í 46.-64. sæti eftir fyrsta hringinn.

Á mótinu leika 144 kylfingar frá 42 þjóðríkjum. Margir þekktir kylfingar hafa sigrað á mótinu en til að mynda sigraði Norður-Írinn, Rory McIlroy á mótinu árið 2006. Sigurvegarinn fær keppnisrétt á Opna mótinu sem hefst um miðjan næsta mánuð.

Það er Ítalinn, Filippo Celli, sem leiðir eftir fyrsta hring á 8 höggum undir pari, þremur höggum á undan Dananum, Rasmus Neergaard-Petersen.

Staðan á mótinu

Hlynur byrjaði vel á Spáni og var kominn á 3 högg undir par eftir 5 holur. Hann fékk þá tvo skolla áður en hann kom í hús á 1 höggi undir pari eftir fyrri níu holurnar. Hann fékk fugl strax á 10. braut en náði ekki að fylgja honum eftir. Hann tapaði fjórum höggum á næstu tveimur holum en lagaði stöðuna með fugli á 15. braut.

Okkar maður verður ræstur út á annan hringinn laust fyrir klukkan níu í dag á íslenskum tíma.