Fréttir

Henley heldur forystunni fyrir lokahringinn á Sony
Russell Henley hefur tveggja högga forskot fyrir lokahringinn.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
sunnudaginn 16. janúar 2022 kl. 11:06

Henley heldur forystunni fyrir lokahringinn á Sony

Russell Henley hefur tveggja högga forskot fyrir lokahringinn á Sony Open mótinu sem fram fer í Honolulu á Hawai.

Henley sem hafði þrjú högg í forskot eftir tvo hringi lék þriðja hringinn á þremur höggum undir pari og þurfti heitan pútter til þess að bjarga sér fyrir horn á lokaholunum. Hideki Matsuyama sótti hart að Henley og var á tímabili búinn að jafna leikinn. Matsuyama lék þriðja hringinn á sjö höggum undir pari og er samtals á 16 höggum undir pari, tveimur á eftir Henley sem er á 18 undir.

Fjórir kylfingar eru jafnir í þriðja sæti á 14 höggum undir. Matt Kuchar sem ekki hefur fengið einn einasta skolla í mótinu til þessa, Kanadamaðurinn Adam Svenson, Írinn Seamus Power og Kínverjinn Hatong Li.

Lucas Glover og Kevin Kisner eru höggi þar á eftir og eiga möguleika á sigri með frábærum hring í kvöld.

Russell Henley hefur þrívegis sigrað á PGA mótaröðinni og þar af einu sinni á þessu móti árið 2013. Hans síðasti sigur kom á Shell Houston Open árið 2017. Hann var opinskár með það í viðtali eftir hringinn í gær að hann hefði nokkrum sinnum verið í forystu fyrir lokahringinn á PGA mótaröðinni og þegar svo væri ætti hann í erfiðleikum með að sofa. Það myndi líklega ekki breytast í þetta skiptið.