Fréttir

Helena vann eftir 77 holur - Nína í 2. sæti komin 6 mánuði á leið
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 27. júlí 2022 kl. 13:34

Helena vann eftir 77 holur - Nína í 2. sæti komin 6 mánuði á leið

Helena Árnadóttir úr GR varð Íslandsmeistari kvenna í höggleik árið 2008 og var þetta annar titill hennar á þremur árum - en hún vann einnig er Íslandsmótið fór fram á Urriðavelli 2006. Helena hafði betur á annarri holu í bráðabana við Nínu Björk Geirsdóttur úr GKj. Höfðu þær þá leikið 77 holur alls til að fá úr því skorið hver sigraði. Spennan var gríðarleg í kvennaflokki alla fjóra mótsdagana. 

Hér er gripið í umfjöllun um mótið í Golf á Íslandi:

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Þegar leið á fjórða og síðasta daginn drógu þær Nína Björk og Helena sig frá öðrum kylfingum og háðu æsispennandi baráttu um titilinn. Þegar þær höfðu lokið 72 holum, eins og lög gera ráð fyrir, voru þær jafnar og því varð að grípa til umspils. Umspilið fór þannig fram að leiknar voru þrjár holur, 10., 11. og 12. braut. Að þeim loknum var enn jafnt og því varð að grípa til bráðabana. 

Það var greinilegt að taugarnar voru þandar þþær fengu báðar tvöfaldan skolla á 10. braut, sem var fyrsta hola í bráðabana. Þá var farið yfir á 11. braut og þar átti Helena mun betra teighögg og var um 100 metra frá flöt á miðri braut og opið inn á flöt. Nína Björk sló aðeins vinstra megin við brautina af teig og var allt of stutt í öðru högginu og var enn utan brautar. Helena sló inn á miðja flöt í öðru höggi sínu og var um 8 metra frá holu. Nína vippaði inn á flöt í þriðja höggi og var þá 6 metra frá holu. Helena átti gott pútt fyrir fugli og var aðeins 30 sm frá holu og örugg með parið. Nína Björk varð að setja sitt pútt ofan í til að eiga möguleika á að jafna við Helenu, en púttið var slakt og missti hún boltann 2-3 metra frá holu. Hún púttaði síðan fyrir skolla en hitti ekki og varð að sætta sig við tvöfaldan skolla. Helena setti púttið auðveldlega í fyrir pari og fagnaði sigri á Íslandsmótinu í höggleik í annað sinn. 

Þegar Helena varð Íslandsmeistari fyrir tveimur árum á Urriðavelli vann hún Ragnhildi Sigurðardóttur í umspili þannig að hún þekkir þessa stöðu ágætlega. Nína Björk barðist eins og hetja og er árangur hennar aðdáunarverður þar sem hún bar barn undir belti - komin sex mánuði á leið

Nína Björk í bráðbananum eftir umspilið. Sjá má á svip hennar að hún er ekki ánægð. Ungir Eyjapeyjar og Ragnhildur Sigurðardóttir fylgjast með við flöt ásamt fleirum.