Fréttir

Haraldur og Guðmundur tveimur höggum frá umspili
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 28. júní 2022 kl. 20:59

Haraldur og Guðmundur tveimur höggum frá umspili

Léku báðir á pari samtals á hringjunum tveimur

Þeir Haraldur Franklín Magnús úr GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG léku á lokastigi úrtökumóts fyrir Opna mótið í dag. Opna mótið er fjórða og síðasta risamót ársins.

Leiknir voru tveir hringir í dag á fjórum völlum samtímis en 72 kylfingar léku á hverjum velli um fjögur pláss á sjálft Opna mótið, sem fram fer á hinum sögufræga St. Andrews velli í Skotlandi dagana 14.-17. júlí nk.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Okkar menn léku báðir á Prince's velinum á suð-austurströnd Englands en það var einmitt á þeim velli sem Haraldur tryggði keppnisrétt sinn á Opna mótið árið 2018. Hann er enn eini íslenski karlkylfingurinn sem leikið hefur á risamóti.

Haraldur Franklín lék á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari á fyrri hringnum en Guðmundur Ágúst á 72 höggum eða á pari vallarins. Á seinni hringnum lék Haraldur á 1 höggi yfir pari en Guðmundur aftur á pari. Þeir höfnuðu í 11.-18. sæti á pari samanlagt á hringjunum tveimur.

Matthew Ford frá Englandi lék best allra eða á 5 höggum undir pari. Landi hans Jamie Rutherford og Ronan Mullarney frá Írlandi léku á 3 höggum undir pari en umspil þurfti til að skera úr um fjórða og síðasta sætið sem í boði var á hið fornfræga risamót í júlí, þar sem fimm kylfingar voru jafnir á 2 höggum undir pari. Svo fór að Englendingurinn Jack Floydd, tryggði sér síðasta sætið með fugli á fyrstu holu umspilsins.

Lokastaðan á mótinu