Fréttir

Haraldur og Bjarki við miðjan hóp í N-Írlandi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 11. ágúst 2022 kl. 19:47

Haraldur og Bjarki við miðjan hóp í N-Írlandi

Þrír íslenskir kylfingar eru að keppa á móti á Evrópumótaröðinni á Norður Írlandi í þessari viku, þeir Haraldur Franklín Magnús, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Bjarki Pétursson. Eftir fyrsta keppnisdag eru Bjarki og Haraldur jafnir með fleirum í 59. sæti á 1 höggi yfir pari en Guðmundur Ágúst er á +4 og þarf mjög góðan hring til að komast í gegnum niðurskurðinn.

Guðmundur Ágúst sem náði sínum besta árangri á Áskorendamótaröð Evrópu í Finnlandi í síðustu viku var á pari eftir 15 holur á fyrsta keppnisdegi. Hann lék síðustu þrjár brautirnar á fjórum yfir pari, fékk tvöfaldan skolla á 16. braut og skolla á 17. og 18. holu.

Bjarki Pétursson fékk tvo fugla á fyrri níu og einn skolla en seinni hringurinn var skrautlegri. Þar fékk hann tvo skolla og einn tvöfaldan skolla og tvo fugla. Samtals +1.

Haraldur Franklín fékk þrjá skolla á fyrri níu holunum og einn fugl en bætti við tveimur fuglum á seinni níu og einum skolla. Er á +1 eins og Bjarki.

Leikið er á tveimur völlum á Galgorm golfsvæðinu, í dag var leikið á Massereene vellinum sem Haraldur segir harðari og flatir minni. Einn hringur af fjórum verður leikinn á Massereene. Hinir þrír á Galgorm vellinum.

„Ég sló eins og engin en pútterinn var kaldur. Ég tók góða púttæfingu eftir hring og vona að pútterinn verði heitari á morgun. Þetta er allt í góðu og ég er spenntur fyrir morgundeginum,“ sagði Haraldur Franklín í stuttu spjalli við kylfing.is.

„Það er virkilega gaman að vera byrjaður að fa tækifæri til þess að spila á sterkustu mótaröð Evrópu. Leikurinn einkenndist af smá stressi og slatturinn var mjög brothættur allan hringinn. En mikill karakter að skrambla vel og skila inn skori sem er vel inni í mótinu ennþá. Ekkert nema tilhlökkun fyrir morgundeginum þar sem markmiðið verður að njóta þess að spila og hafa gaman,“ sagði Bjarki Pétursson eftir fyrsta hringinn.

Efsti maður er Skotinn Ewen Ferguso á -9 en næstu kylfingar eru á -5.

Staðan eftir 18 holur.