Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Haraldur komst á lokaúrtökumótið fyrir DP
Haraldur Franklín Magnús og Thomas Strandemo, kylfusveinn hans en þeir voru liðsfélagar í háskólagolfinu í Bandaríkjunum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 5. nóvember 2023 kl. 20:18

Haraldur komst á lokaúrtökumótið fyrir DP

Haraldur Franklín Magnús komst áfram á lokaúrtökumótið fyrir DP mótaröðina eftir góðan árangur á einu af fjórum 2. stigs úrtökumótanna sem lauk í dag. Félagar hans, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Axel Bóasson komust ekki á lokamótið sem hefst 10. nóvember og fer fram fer á Infinitum Golf (Lakes & Hills) Tarragona á Spáni 10.-15. nóvember.

Haraldur byrjaði frekar illa á fyrsta hring á Fontanals vellinum og var fjóra yfir pari eftir fimm holur en fór þá í gang og endaði hringinn á +2. Annan hringinn lék hann á pari en á þriðja og fjórða hring lék hann frábært golf, á -5 og -4. Á þriðja hringnum lék hann t.d. Seinni níu holurnar á sex undir pari. Á lokahringnum var hann í góðum málum en fékk skolla á 14. og 16. holu en fékk svo fugl á 17. og örn á 18. holu með því að setja niður þriðja höggið með 50 gráðu fleygjárni af 125 metra færi. Frábær endir og 7. sætið í mótinu á -7.

Þetta er í fyrsta skipti sem Haraldur kemst inn á lokaúrtökumótið síðustu fimm skipti á undan hafði hann komist inn á 2. stigið en ekki tekist að komast á lokastigið. Haraldur var með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni en endaði ekki meðal 45 efstu til að komast á lokamótið og þurfti því að fara í úrtökumót.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Haraldur var sáttur með spilamennskuna. Hann segir að völlurinn hafi verið frábrugðin mörgum völlum á Spáni en hann er 1200 metra yfir sjávarmáli. „Ég fór illa af stað og var fjóra yfir eftir fimm holur. En þá fór ég í gang og lék vel eftir það og sérstaklega á þriðja hringnum. Ég lenti í basli á 16. holu en bjargaði skolla en fékk svo fugl á 17. og örn á lokaholunni. Átti 125 metra eftir á 18. braut, upp í móti en boltinn flaug lengra í fjöllunum. Boltinn small í holu og ég heyrði fagn í myndatökumanni sem var því miður með slökkt á vélinni. Nú er bara ð koma sér í gír fyrir lokamótið,“ sagði Haraldur í spjalli við kylfing.is eftir mótið.

Guðmundur Ágúst endaði í 66. sæti á Desert Springs vellinum á Spáni og komst ekki á lokamótið. Hann var með þátttökurétt á DP mótaröðinni á þessari keppnistíð 2022-23 og endaði í 187. sæti á stigalistnum og náði ekki að halda þátttökurétti sínum. Hann náði honum með því að enda meðal tuttugu og fimm efstu á lokaúrtökumótinu í fyrra.

Axel Bóasson lék á Canela Links vellinum nærri borginni Huelva. Hann lék 72 holurnar á -4 og endaði í 54. sæti og komst því ekki á lokamótið. Axel endaði í 5. sæti á stigalista Nordic mótaraðarinnar og tryggði sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni með þeim árangri.