Fréttir

Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst reyna að komast inn á Opna mótið
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 27. júní 2022 kl. 12:55

Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst reyna að komast inn á Opna mótið

Leika á lokastigi úrtökumóts á þriðjudag

Þeir Haraldur Franklín Magnús úr GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG leika á lokastigi úrtökumóts fyrir Opna mótið, fjórða og síðasta risamót ársins, á þriðjudag.

Mótið er leikið á fjórum völlum samtímis og leiknir verða tveir hringir samdægurs. Á hverjum velli keppa 72 kylfingar um fjögur pláss á Opna mótið. Okkar menn leika á Prince's velinum á suð-austurströnd Englands.

Haraldur Franklín verður ræstur út frá 1. teig klukkan 6:20 í fyrramálið á fyrri hring og frá 10. teig klukkan 12:05 á hádegi á seinni hring. Guðmundur Ágúst verður ræstur út frá 10. teig klukkan 6:30 í fyrramálið á fyrri hring og frá 1. teig klukkan 12:15 á hádegi á seinni hring.

Haraldur Franklín Magnús komst inn á Opna mótið árið 2018 í gegnum úrtökumót á sama velli. Sjálft Opna mótið fer fram á hinum sögufræga St. Andrews velli í Skotlandi 14.-17. júli nk.