Fréttir

Haraldur Franklín komst áfram - Bjarki og Guðmundur úr leik
Haraldur
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 12. ágúst 2022 kl. 17:30

Haraldur Franklín komst áfram - Bjarki og Guðmundur úr leik

Haraldur Franklín Magnús komst í gegnum niðurskurðinn á ISPS Handa World International á DP Evrópumótaröðinni á Galgorm golfsvæðinu á N-Írlandi. Bjarki Pétursson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson komust ekki áfram. 

Haraldur lék á einu höggi undir pari en leikið var á „aðal vellinum“ í dag, Galgorm og er á pari í heildina. Bjarki endaði á +4 og Guðmundur Ágúst á +8. Niðurskurðurinn eftir 36 holur er +1. Sextíu efstu og jafnir komast áfram en svo verður annar niðurskurður eftir 3 hringi.

„Þetta var skemmtilegur dagur. Ég fór brösuglega af stað en náði að bjarga mér með góðu stuttu spili. Í kringum miðbik hringsins fór mér að ganga betur í slættinum en púttin duttu ekki. Ég lenti í smá brasi á 17. braut þegar ég lenti tvisvar í glompu og tapaði eina höggi dagsins. Fékk svo fugl á síðustu sem er par 5, átti frábært upphafshögg með drævernum en endaði í brautarglompu, annað höggið ágætt og innáhöggið endaði um 6 metra frá pinna fyrir fugli en holan var á erfiðum stað nálægt vatni. En ég setti púttið niður, sem var ljúft,“ sagði Haraldur Franklín.

Það verður einnig niðurskurður eftir 54 holur en þá munu 40 efstu komast í lokahringinn. Haraldur er jafn í 42. sæti eftir tvo hringi.

Staðan eftir 36 holur.