Fréttir

Haraldur er á 1 höggi undir pari eftir fyrri hringinn á Prince’s
Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Ljósmynd: Facebook/Viggó Haraldur Viggósson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 28. júní 2022 kl. 11:47

Haraldur er á 1 höggi undir pari eftir fyrri hringinn á Prince’s

Guðmundur Ágúst er á pari

Þeir Haraldur Franklín Magnús úr GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG leika á lokastigi úrtökumóts fyrir Opna mótið í dag. Opna mótið er fjórða og síðasta risamót ársins.

Leiknir verða tveir hringir í dag fjórum völlum samtímis en 72 kylfingar leika á hverjum velli um fjögur pláss á sjálft Opna mótið, sem fram fer á hinum sögufræga St. Andrews velli í Skotlandi dagana 14.-17. júlí nk.

Okkar menn leika báðir á Prince's velinum á suð-austurströnd Englands en Haraldur Franklín á góðar minningar frá vellinum. Það var einmitt á þeim velli sem Haraldur tryggði keppnisrétt sinn á Opna mótið árið 2018. Hann er enn eini íslennski karlkylfingurinn sem leikið hefur á risamóti.

Þeir félagar hafa nýlokið leik á fyrri hring dagsins. Haraldur Franklín lék á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari og er sem stendur í 16.-26. sæti en Guðmundur Ágúst á 72 höggum eða á pari vallarins í 27.-32. sæti. Efstu menn eru á 4 höggum undir pari.

Haraldur verður ræstur út á seinni hringinn núna klukkan 12:05 á hádegi og Guðmundur klukkan 12:15 á íslenskum tíma.

Staðan á mótinu