Fréttir

Halli Mello og Þröstur með Albatross
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 23. júní 2022 kl. 11:56

Halli Mello og Þröstur með Albatross

Tveir kylfingar gerðu sér lítið fyrir nýlega og fengu Albatros eða 3 undir pari. Hinn landsþekkti Halli Melló náði mögnuðu höggi í Grafarholti og Þröstur Sigurðsson, oft kenndur við Sporthúsið, náði þessu afreki á Öndverðarnesvelli.

Hallgrímur Ólafsson, Halli Melló, mætti galsvaskur á 12. teig í Grafarholtinu. Brautin er par 5 og þar hafa margir lent í ævintýrum, fleiri sennilega í vandræðum. En þar er boðið upp í dans og Halli var í góðum gír.

Það var meðvindur þannig að ég tók bara miðið yfir holtið mitt á milli 100 m og 150 m hælanna. Lenti á miðri braut, 135 m í pinnann. Ég hugsaði með mér að þarna væri dauðafæri fyrir örn svo ég ákvað að slá með 9 járni og hugsaði með mér að ef ég yrði of stuttur gæti ég alltaf púttað fyrir utan og viti menn,  ég smellhitti 9 járnið. Boltinn skoppaði rétt fyrir utan og rúllaði svo bara beint í holu. Ég sá reyndar ekki þegar boltinn rann í holu,“ sagði Halli sem er duglegur kylfingur með 10,9 í forgjöf. Júnímánuður hefur verið honum góður því hann var valinn Bæjarlistamaður Akraness og var einnig tilnefndur til Grímunnar. Hann er því ekki bara góður golf-„leikari“ heldur eins og flestir vita líka afbragðs leikari. 

Víkur þá sögunni að Þresti Jóni Sigurðssyni en hann var að leika golf við frábærar aðstæður í Öndverðarnesi. Þar er mögnuð par 5 braut á fyrri hringnum, sú áttunda. Þar skiptir máli að vera vel staðsettur með upphafshöggið því innáhöggið er oftast blint. Upphafshöggið var mjög vel heppnað með driver og annað höggið var ca 175-180 metra högg með 5 járni. Þeir sem ekki spila golf finnst þetta sennilega ekkert merkilegt, en þetta er stór áfangi fyrir mig! Nú er mér alveg sama þó það heppnist ekkert högg út sumarið,“ sagði Þröstur í færslu á Facebook. Kappinn er góður kylfingur og er kominn í 10 í forgjöf. 

Það þykir frábært að fara holu í höggi en Albatros eða tvöfaldur örn, er mun sjaldgæfari enda 3 undir pari og gengur þar af leiðandi bara á par 5 brautum. Albatros þykir magnaður fugl og því er talið að þetta nafn hafi verið notað þegar kylfingur náði því að leika á þremur undir pari.