Fréttir

Guðrún Brá náði sér ekki á strik í úrhellinu í Þýskalandi
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 12:29

Guðrún Brá náði sér ekki á strik í úrhellinu í Þýskalandi

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK lauk leik á Amundi German Masters á föstudag en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Hún kom í hús á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari Seddiner See vallarins á fyrsta hringnum á fimmtudag en á 80 höggum eða á 8 höggum yfir pari á öðrum hringnum. Hún var nokkuð langt frá niðurskurðinum sem miðaðist við 2 högg yfir par. Það gerði úrhellisrigningu á öðrum hring og fresta þurfti leik um tíma.

Staðan á mótinu

Hin sænska Jessica Karlsson, sem leiddi mótið eftir fyrsta hringinn, bætti við forskot sitt og leiðir mótið inn í helgina á 13 höggum undir pari, fjórum höggum á undan næstu kylfingum.

Okkar kona sagði í spjalli við kylfing.is að hún væri virkilega svekkt eftir harða baráttu á fyrsta hring.

„Ég byrjaði vel í gær og var á góðu róli enn fékk svo þrefaldan skolla út frá einu lélegu 'drævi' sem var algjör óþarfi. Eftir það náði ég mér ekki til baka og var í raunninni búin að missa allt of mörg högg frá mér. Ekki létti á deginum að við þurftum að bíða í skálanum í þrjá tíma vegna rigningar. Ég var búin að spila 9 holur þegar við vorum kallaðar inn. Aðstæður voru erfiðar eftir það og það var mjög erfitt að gíra sig í gang aftur eftir langa bið. Seinni dagurinn var mjög langur en hann hófst með rútuferð upp á völl klukkan 6 um morguninn og ég var ekki komin til baka fyrr en klukkan hálfsex um kvöldið.“

En hvernig horfir Guðrún Brá á framhaldið?

„Ég er mjög óánægð með framistöðu mina i seinustu tveimur mótum en ég vinn í því sem má fara betur og geri betur næstu tvö mót. Þótt ég sé búin að spila illa eða skora illa þá er margt gott inn á milli og það vantar ekkert mikið upp á að eg spili vel, það er svo þunn lína á milli.“

Evrópumótaröðin ferðast nú til Spánar þar sem Estrella Damm Ladies Open fer fram dagana 7.-10. júlí. Guðrún Brá verður meðal þátttakenda á mótinu.

„Ég fer mjög ákveðin inn í næsta mót á Spáni. Ég hef spilað á vellinum áður og það hjálpar alltaf að þekkja völlinn og svæðið,“ sagði Guðrún Brá að lokum.