Fréttir

Guðrún Brá lenti í hrakningum á lokahringnum í Bangkok
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 14. maí 2022 kl. 09:46

Guðrún Brá lenti í hrakningum á lokahringnum í Bangkok

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK, náði sér ekki á strik á lokahring Aramco Team Series í Bangkok í nótt en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Guðrún Brá kom í hús á 79 höggum eða á 7 höggum yfir pari vallarins á Thai Country Club. Hún lék hringina þrjá á samtals 224 höggum (74-71-79) eða á 8 höggum yfir pari og hafnaði í 55.-57. sæti.

Það var Manon De Roey frá Belgíu sem var hlutskörpust á mótinu en hún lék hringina þrjá á 203 höggum (70-67-66) eða á 13 höggum undir pari, þremur höggum betur en hin sænska Johanna Gustavsson.

Lokastaðan á mótinu

Guðrún Brá var ræst út af 1. teig í nótt og lenti í hrakningum strax á fyrstu braut er hún fékk fjórfaldan skolla. Á annarri braut fékk hún tvöfaldan skolla og hringurinn var í raun ónýtur, ef svo má segja. Guðrún náði þó að koma sér á beinu brautina. Eftir pör á 3. og 4. braut kom fyrsti fuglinn á 5. braut. Skollar á 6. og 8. braut og par á 9. braut þýddu að hún kom í hús á 43 höggum eftir fyrri níu holurnar eða á 7 höggum yfir pari.

Guðrún Brá paraði brautir 10-14 og fékk þá annan fugl dagsins á 15. braut. Hún fékk skolla á 16. braut og svo þriðja og síðasta fuglinn á 17. braut. Skolli á 18. braut lokaði prýðilegum seinni níu holum en Guðrún kom í hús á parinu eftir seinni níu.

Skorkort Guðrúnar Brár

Erfið byrjun hjá okkar konu setti hana aðeins út af laginu en hún var fljót að jafna sig og gerði vel megið af hringnum.

Evrópumótaröðin ferðast nú til Frakklands þar sem Jabra Ladies Open fer fram á Evian vellinum í austurhluta landsins. Guðrún Brá verður meðal þátttakenda á mótinu.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mun einnig leika á Jabra Ladies Open en hún keppti síðast á atvinnumannamóti haustið 2020. Ólafía og eiginmaður hennar, Thomas Bojanowski, eignuðust sitt fyrsta barn síðasta sumar en hún hefur verið að vinna að endurkomu sinni síðan í lok síðasta árs.