Fréttir

Guðmundur Ágúst lyfti sér upp um nokkur sæti við krefjandi aðstæður
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Ljósmynd: golfsupport.nl/Martin Groebner
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 30. júlí 2022 kl. 21:55

Guðmundur Ágúst lyfti sér upp um nokkur sæti við krefjandi aðstæður

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG lék þriðja hringinn á Irish Challenge fyrr í dag en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Bjarki Pétursson, einnig úr GKG, komst ekki í gegnum niðurskurðinn í gær.

Kylfingar skiluðu almennt verra skori á þriðja hringnum í dag en á fyrstu tveimur hringjunum en vindurinn lék nokkuð stórt hlutverk á hringnum. Guðmundur Ágúst skiptist á að fá fugla og skolla þegar hann fékk eitthvað annað en par og kom í hús á 72 höggum eða á pari vallarins og lyfti sér upp um nokkur sæti á milli hringja. Okkar maður situr í 35.-42. sæti fyrir lokahringinn á samtals 1 höggi undir pari vallarins, 14 höggum á eftir Todd Clements sem bætti við forystu sína og á nú fimm högg á næsta mann.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Guðmundur Ágúst verður ræstur út á lokahringinn laust fyrir klukkan hálffníu í fyrramálið á íslenskum tíma.

Staðan á mótinu