Fréttir

Golfhreyfingin logar
Fimmtudagur 11. maí 2023 kl. 06:14

Golfhreyfingin logar

Óhætt er að segja íslenska golfhreyfingin logi eftir að fréttir bárust af reglugerðarbreytingu Golfsambands Íslands um skorskráningu með farsímum á komandi leiktímabili. 

Fram kom í frétt Kylfings í gær að klárt væri að þetta fyrirkomulag yrði viðhaft hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar í sumar. 

Ágúst Jensson framkvæmdastjóri klúbbsins þvertekur fyrir það í tölvupósti þar sem hann óskaði leiðréttingar á fréttinni.  Starfsmaður klúbbsins Sigurður Geirsson hafi setið fund dómaranefndar GSÍ og hafi verið að vísa til þess að GM stefni að því í sumar að hætta að prenta út skorkort og hafa allt rafrænt en ætlar ekki að fara vísa neinum úr mótum.

Frétt Kylfings í gær fylgdi hlekkur á fund dómaranefndar GSÍ þar sem farsímamálið var rætt. Þar var þessari reglugerðarbreytingu lýst sem þeirri stærstu á þessu ári. 

Þar segir:

5. Að lokinni hverri holu skulu leikmenn skrá á rafrænan hátt skor sitt, ráshóps síns eða þess sem viðkomandi eru ritari fyrir fari fulltrúi mótsstjórnar fram á það. Víti fyrir brot á skilmála: Frávísun.

Hlekknum á fund dómaranefndar á Youtube var lokað í gær eftir að hann birtist í frétt Kylfings og þar stendur nú „This video is private“. Dómaranefnd GSÍ sendi frá sér tölvupóst í gær þar sem dómarar voru beðnir um að dreifa alls ekki efni af fundum nefndarinnar til fjölmiðla. 

Sá sem kynnti farsímaregluna fyrir dómurum var varaforseti GSÍ, Hörður Geirsson alþjóðagolfdómari. Máli hans fylgdi að stjórn GSÍ hefði samþykkt þær. Starfsmaður GM er enginn aukvisi í dómarafræðunum heldur einn þekktasti golfdómari landsins Sigurður Geirsson, sem bæði situr í dómaranefnd GSÍ og aganefnd GSÍ. Sigurður er víðlesinn dómari og höfundur dómarahandbókar GSÍ.

Sigurður fór mikinn á samfélagsmiðlum í gær og á Facebook hópnum „Golfspjallið“ setur hann tvö innlegg þar sem fram kemur: 

Æ,Æ,Æ illa unnin frétt og jafnvel í mótstöðu við sjálfa sig. Þarna kemur fram að HEIMILT verði að veita frávísun á Íslandsmeistaramótum. Seinna í fréttinni er fullyrt að leikmenn muni fá frávísun. Það er mótastjórn hvers Íslandsmeistaramóts að ákveða hvort þessari heimild verði beitt eða ekki og þá hvernig. Það eru því engar forsendur til að fullyrða neitt að svo stöddu. Til viðbótar má geta þess að það er komið nýtt Golfbox með nýjum eiginleikum sem þýðir að menn munu ekki nota kerfið í ár með sama hætti og í fyrra. Þannig að verklag ársins 2022 verður ekki notað 2023.

og skrifar svo líka: 

…það er engum vísað frá vegna þessara reglna nema þeim sem ætla að spila á Íslandsmótum GSÍ. Þessi ákvörðun kemur því ekkert við hinn almenna kylfing.

Fjölmargir kylfingar hafa tjáð sig um málið og meðal annars velt því fyrir sér hvort farsíminn ætti að verða fimmtánda kylfan í pokanum. Samkvæmt innleggi Sigurðar Geirssonar golfdómara er ljóst að til stendur að vísa kylfingum úr Íslandsmótum GSÍ í sumar skrái þeir ekki skor sitt rafrænt um leið og leik á holu er lokið. Leikið er í öllum aldursflokkum í Íslandsmótum GSÍ.