Fréttir

Gísli er ánægður að vera kominn aftur á völlinn
Gísli Sveinbergsson fór holu í höggi á 4. holu á Hvaleyrarvelli á Meistaramóti Keilis
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 23. júlí 2022 kl. 07:31

Gísli er ánægður að vera kominn aftur á völlinn

Gísli Sveinbergsson er eitt mesta efni sem við Íslendingar höfum eignast. Árið 2013, þá 15 ára gamall, sigraði Gísli á sterku alþjóðlegu móti, US Kids European Championship í Skotlandi og árið 2017, þá 19 ára að aldri, bætti Gísli vallarmetið á Prince’s vellinum á suð-austurströnd Englands um eitt högg þegar hann lék völlinn á 64 höggum á Opna áhugamannamótinu. Fyrra metið átti enginn annar en hinn írski Paul Dunne, sem er sjálfsagt þekktastur fyrir að hafa leitt Opna mótið fyrir lokahringinn árið 2015, ásamt Ástralanum Jason Day og Louis Oosthuizen frá Suður-Afríku.

Gísli varð fyrir meiðslum og þurfti að fara í mjög stóra aðgerð sem hélt honum frá golfvellinum um nokkurt skeið. Hann er nú farinn aftur af stað en hann tók m.a. þátt í Meistaramóti Keilis fyrr í mánuðinum.

Þegar Gísli steig upp á fjórða teiginn á fyrsta hring á Meistaramótinu var hann á 1 höggi yfir pari eftir tvöfaldan skolla á 2. holu og góðan fugl á þeirri þriðju. Gísli gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 4. brautinni.

„Þetta var yndislegt 150 metra högg slegið með 8 járni. Þetta var eitt af þessum höggum sem fór aldrei af stefnu. Boltinn lenti rúma 5 metra frá pinna og rúllaði svo bara fallega í holuna. Þetta var geggjuð tilfinning og það var mikill fögnuður á eftir upp í golfskála. Það er alltaf gaman að slá draumahöggið en þetta var mitt þriðja á ferlinum. Þetta högg á Meistaramótinu var svolítið sérstakt því það er fyrsta draumahöggið mitt í keppni. Ég hef farið holu í höggi áður á gömlu 16. brautinni í Keili og gömlu 16. brautinni á Korpunni. Það er alveg frábært að vera kominn aftur á völlinn. Mér finnst ég hafa verið að spila fínt golf. Það hafa komið nokkrir mjög góðir hringir undanfarið en slæmu hringirnir hafa því miður verið verri en ég hefði gert mér vonir um. Hugarfar mitt eftir aðgerðina hefur svolítið breyst sem lýsir sér best í því að að reyni meira að njóta úti á velli en ég kannski gerði. Það var alls ekki víst að ég gæti leikið golf eftir aðgerðina svo ég er fullur þakklætis. Framhaldið á ferlinum er svolítið í óvissu. Ég hef verið að spila erlendis fyrri hluta ársins en mér hefur ekki þótt gengið á mótunum vera nægjanlega gott. Ég myndi vilja bæta mig þar til að hafa metnaðinn til þess að halda áfram í keppnisgolfi.“