Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Fyrst kvenna vallarstjóri hjá einum af þekktustu völlum heims
Anna Nilson hefur tekið við sem vallarstjóri á Brabazon vellinum á Belfry golfsvæðinu.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 11. janúar 2022 kl. 12:49

Fyrst kvenna vallarstjóri hjá einum af þekktustu völlum heims

Margir Íslendingar hafa í gegnum tíðina lagt leið sína til Birmingham og leikið á hinu þekkta Belfry golfsvæði. Brabazon völlurinn er flaggskip svæðisins en þar hefur Ryder bikarinn meðal annars verið haldinn fjórum sinnum sem er oftar en á nokkrum öðrum velli.

Hin sænska Anna Nilson hefur nú fengið stöðuhækkun og tekið við sem yfirvallarstjóri á þessum sögufræga og frábæra golfvelli. Samkvæmt Golf Monthly mun þetta vera í fyrsta sinn sem kona gegnir þessari stöðu hjá einum af þekktustu völlum heims.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hún fær nú það verðuga verkefni að gera völlinn tilbúinn fyrir Betfred British Masters mótið á DP World Tour sem fram fer 5. til 8. maí í vor.

Anna flutti frá heimalandi sínu árið 2019 til að starfa á Belfry svæðinu. Hún hafði fyrir það starfað á fjölda golfvalla í heimalandi sínu eftir útskrift frá sænska Landbúnaðarháskólanum.

Í tilkynningu frá forráðamönnum golfsvæðisins kemur fram að þeir vonist til þess að velgengni Nilson verði til þess að fleiri konur ákveði að mennta sig og starfa í faginu.

UPPFÆRT.

Kylfingi.is barst athugasemd við ofangreint frá fremsta vallarstjóra okkar Íslendinga Bjarna Þór Hannessyni.

„Þetta er ekki alveg kórrétt. Candice Combs er sú kona sem hefur verið hæst sett allra kvenna í geiranum, og um langt skeið að auki. Hún er vallastjóri á South Course vellinum á Torrey Pines og stýrt vellinum á tveim US Open. Anna er hinsvegar aðstoðarvallastjóri a Brabazon vellinum. Þannig að þó þetta sé vel gert hjá Önnu og fyllilega verðskuldað, þá heldur Candice titlinum enn sem komið er. Anna á hinsvegar framtíðina fyrir sér. Og vonandi fá fleiri konur áhuga á faginu þegar þær sjá þessar fyrirmyndir."