Fréttir

Frægasti golfljósmyndari heims
Cannon sýnir hér Rory Mcilroy myndir á móti í Dubaí 2016. Mynd/golfsupport.nl
Þriðjudagur 29. október 2024 kl. 14:23

Frægasti golfljósmyndari heims

David Cannon er án efa frægasti golfljósmyndari  í heimi en hann er líka ágætur kylfingur. Hann lék í unglingamóti með Nick Faldo en sá að hann var í allt annarri deild. Hér er skemmtilegt innslag með kappanum að leika hinn magnaða Old Head golfvöll í S-Írlandi.

Margar af frábærum ljósmyndum af frægum kylfingum eru eftir kappann en Cannon er sjálfmenntaður ljósmyndari og hóf ferilinn hjá Leicester fréttaþjónustunni í Englandi ungur að árum. Cannon starfaði síðar fyrir stórar alþjóðlegar ljósmyndaþjónustur.

Þegar hann byrjaði að munda myndavélina var hann með tvö ráð í farteskinu varðandi ljósmyndun sem hann hefur nýtt sér alla tíð en það er að „fókusa á augun og fylla rammann“. Hann byrjaði reyndar sem íþróttaljósmyndari en hafandi stundað golf lá leiðin þangað. Hann seldi bílinn sem hann átti til að fjárfesta í græjum en síðan hefur leiðin legið upp á við. Hann hefur myndað á tæplega 800 viðburðum, þar á meðal nærri 200 risamótum karla og kvenna að ógleymdum sautján Ryder keppnum á sínum ferli. Í viðtali við vefsíðu CNN segist hann hafa heimsótt 115 lönd, sofið rúmlega fimm þúsund nætur á hótelum og gengið yfir tuttugu þúsund kílómetra með linsur og myndavélar í vinnunni sem hann elskar.

Cannon á nokkrar uppáhaldsmyndir en hann hefur kynnst mörgum frægum kylfingum á ferlinum. Hann og Seve Ballesteros frá Spáni urðu góðir vinir og tvær af hans uppáhaldsmyndum frá löngum ferli eru af spænska goðinu, önnur þegar hann fagnaði á eftirminnilegan hátt eftir að hafa sett niður sigurpútt á OPNA mótinu á Gamla vellinum í St. Andrews 1984. „Hún er uppáhalds myndin mín af rétta augnablikinu,“ get ég sagt, segir kappinn sem hefur átt augnablik með bestu kylfingum heims eins og Jack Nicklaus, Tiger Woods og fleiri. 

Í viðtalinu við Inci Mehmet, sendiherra frá Callaway golfframleiðandanum, en hún fer með honum í golf á Old Head, fer hann yfir hans frægustu myndir sem og fleira frá ljósmyndaraferlinum.

Frábært viðtal við viðkunnanlegan mann sem hefur sett svip sinn á golfheiminn síðustu áratugi.

Páll Ketilsson, ritstjóri kyflings.is hitti Cannon á OPNA (breska) mótinu á Carnouiste í Skotlandi árið 2018. 

Bernd Wiesberger frá Austurríki bregður hér á leik með Cannon. Mynd/golfsupport.nl