Fréttir

Frábær byrjun hjá Íslendingunum á 2. stiginu
Þremenningarnir, Bjarki, Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 3. nóvember 2022 kl. 16:38

Frábær byrjun hjá Íslendingunum á 2. stiginu

Íslendingarnir þrír sem taka þátt á 2. stigi úrtökumótanna fyrir DP Evrópumótaröðina byrjuðu mjög vel á fyrsta hring. Bjarki Pétursson er jafn í 3. sæti, Haraldur Franklín jafn í því sjöunda og Guðmundur Ágúst Kristjánsson jafn í 29. sæti.

Borgnesingurinn Bjarki var í feikna stuði og lék skollalausan hring á 7 undir pari. Hann fékk fjóra fugla á fyrri níu holunum og þrjá á þeim seinni. Það var svipað uppi á teningnum hjá Haraldi Franklín sem kom inn á -6. Guðmundur Ágúst lék á -3 og fékk þrjá skolla og sex fugla. Besta skor er -9.

Strákarnir leika allir á Isla Canela Links í Huelva á Spáni en 2. stigið fer fram á þremur öðrum völlum og má áætla að um tuttugu efstu á hverjum fjögurra keppnisvalla komist á lokastigið. Leiknar verða 72 holur og enginn niðurskurður.

Bjarki hefur tvisvar áður verið meðal þátttakenda á 2. stigi, síðast 2019. Haraldur hefur fimm sinnum verið í þessari stöðu og sömuleiðis Guðmundur Ágúst. Einu sinni hefur hann komist á lokamótið, árið 2019. Guðmundur og Haraldur voru báðir með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í ár og náðu að halda þeim rétti áfram. Í þessum úrtökumótum freistast þeir til að komast inn á DP Evrópumótaröðina.

Staðan eftir 18 holur.

Gunnlaugi Árna, kylfusveini Bjarka og Finni sem er með pokann fyrir Harald. Kristján Ágústsson, faðir Guðmundar er kylfusveinn hjá honum og tók myndirnar.