Fréttir

Fólk með MS getur gert ýmislegt
Það var mikil gleði í Bakkakoti á styrktarmóti MS-félagsins. Ljósmynd: Aðalgeir Gestur Vignisson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 6. júní 2022 kl. 11:39

Fólk með MS getur gert ýmislegt

Styrktarmót MS-félagsins í Bakkakoti

MS-félagið stóð fyrir styrktarmóti á uppstigningardag, 26. maí, í Bakkakoti í Mosfellsdal. Fyrirkomulagið var ansi skemmtilegt en níu lið öttu kappi í léttri og skemmtilegri níu holu Texas Scramble keppni þar sem fjórir kylfingar voru í hverju liði.

Liðin stóðu saman af tveimur þekktum einstaklingum af hvoru kyni, auk fulltrúa frá einu af þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem lögðu mótinu lið. Síðasti liðsmaður hvers liðs en þó alls ekki sá sísti var einstaklingur með MS.

Það var flott veður í Mosfellsdalnum. Það blés aðeins um morguninn en þegar leið aðeins á daginn var rjómablíða og bæði dalurinn og völlurinn skörtuðu sínu fegursta. Hjördís Ýrr Skúladóttir sagði, í samtali við Kylfing.is, að svona mót sé afskaplega mikilvægt fyrir félag á borð við MS-félagið.

„Svona viðburður vekur athygli og hann er tækifæri fyrir okkur sem erum að glíma við þennan fylgifisk að upplýsa um hvað við getum gert. Þó það sé hundleiðinlegt að glíma við MS þá getum við sem erum með MS gert mjög margt líka og lífslíkur margra minnka ekki við greiningu. Golfið undirstrikar einnig að stundum er hægt að nálgast hlutina á annan hátt. Sumir hafa kannski ekki orku til að ganga marga kílómetra en þeir geta þó sveiflað kylfu. Þá er gott að geta nýtt hjálpartækið sem golfbíllinn er.“

„Við fengum til liðs við okkur 18 þekkta einstaklinga og erum auðvitað þakklát fyrir þeirra framlag. Fyrirliði þríeykisins landsfræga, Víðir Reynisson, mætti, Guðmundur Benediktsson, sjónvarpsmaður og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður. Þá var stórleikkonan Ólafía Hrönn á svæðinu sem og hinn landsþekkti tónlistarmaður, Eyjólfur Kristjánsson. Fleiri tónlistarmenn tóku þátt í þessu með okkur en hjónin Regína Ósk og Svenni Þór gáfu sér tíma fyrir okkur sem og söngdívan Birgitta Haukdal. Sr. Hjálmar Jónsson fyrrverandi dómkirkjuprestur var með okkur og gamla badminton-kempan, Elsa Nielsen. Þá var fasteignasalinn, skemmtikrafturinn og fyrrum Ólympíufarinn Venni Páer á svæðinu sem og Sigmar Vilhjálmsson, veitinga- og athafnamaður,“ segir Hjördís Ýrr.

Sigmar vann til nándarverðlauna á 6. braut en sagði í samtali við Kylfing að það hefði nú verið heppnisstimpill á högginu.

„Pinnastaðsetningin var nokkuð erfið og ég hitti boltann ekki vel. Hann skoppaði þó upp í bakkann og kom svo til baka að holu. Ég var rúma þrjá metra frá sem var í raun algjör grís. Þetta var ekki mitt besta högg upp að pinna ef þú skilur hvað ég á við,“ segir Sigmar.

Sigmar segist hafa leikið golf frá unga aldri en kannski ekki náð að sinna því sem skildi á fullorðinsárum verandi að koma upp bæði fjölskyldu og fyrirtækjum.

„Nú eru krakkarnir orðnir stærri og ég hef meiri tíma fyrir skemmtileg áhugamál á borð við golfið.“

Sigmar segist hafa orðið vitni að mörgum glæsilegum tilþrifum á mótinu.

„Þetta var afskaplega gaman. Það sem kom mér helst á óvart var hversu mikið fólk getur í raun og veru gert þrátt fyrir að vera að kljást við þennan erfiða fylgifisk sem MS er. Það undirstrikar líka eðli golfíþróttarinnar og fjölbreytileikann sem hún bíður upp á. Ég gæti líka trúað að hreyfing á borð við golf geti hjálpað fólki með MS og jafnvel dregið úr og fækkað einkennum, án þess að ég sé sérfræðingur í þeim efnum. Þetta var skemmtilegur dagur, við fengum gott veður og það var ánægjulegt að hafa tök á að leggja þessu verðuga málefni lið,“ segir Sigmar Vilhjálmsson að lokum.

Sigmar Vilhjálmsson vippar, Haukur Dór Kjartansson frá MS-félaginu stendur hjá ásamt Herdísi Þórisdóttur frá Fastus. Það glittir í Arnhildi Önnu Árnadóttur kraftlyftingakonu, sem stendur bak við golfbílinn. Ljósmynd: Aðalgeir Gestur Vignisson

Haukur Dór Kjartansson, stjórnarmaður í MS-félaginu, hafði veg og vanda af skipulagningu mótsins. Hann sagði hafa staðið til að halda mótið fyrir ári síðan en að því hafi verið frestað vegna ástandsins sem Covid-faraldurinn skapaði.

„Mótið var haldið nokkrum dögum fyrir Alþjóðadag MS, sem haldið var upp á hér á landi í 14. sinn. Það var mikið húllumhæ, því auk golfmótsins var sumarhátíð MS-félagsins haldin hátíðleg. Þar steig Leikhópurinn Lotta m.a. á svið og Inga María Björgvinsdóttir tók lagið fyrir gesti og gangandi. Þetta var í alla staði vel heppnað og ég held að það sé óhætt að fullyrða að fólk hafi skemmt sér mjög vel.“

Teymið frá MS-félaginu: Ingdís Líndal skrifstofustjóri, Haukur Dór Kjartansson, stjórnarmaður og Berglind Ólafsdóttir framkvæmdastjóri félagsins. Ljósmynd: Aðalgeir Gestur Vignisson

„Lið Maríu Erlu Bogadóttur bar sigur úr bítum en það þurfti að draga út sigurvegara þar sem tvö lið voru jöfn. María hlaut í verðlaun glæsilegan Straumnes jakka frá 66°Norður en ásamt henni skipuðu liðið þau Bjarki Lárusson frá Vinnufötum ehf., Hrafnhildur Halldórsdóttir útvarpsmaður á Rás 2 og Vilhelm Einarsson, rekstrarstjóri Minigarðsins.“

María Erla var auðvitað afskaplega ánægð með verðlaunin og daginn í heild sinni.

„Þetta var mjög skemmtilegt. Ég hafði aldrei farið áður í golf og því nýttist ég best á flötunum – mér gekk vel með pútterinn,“ segir María Erla og hlær.

Hún greindist árið 2003 með MS, þá 19 ára gömul. Hún segir að hún geti gert ýmislegt þó hún upplifi oft mikla þreytu vegna þessa fylgifisks.

„Ég hef getað unnið og ég hef lokið námi. Ég lauk fimm ára námi í lyfjafræði og svo lauk ég einnig námi í heilsuhagfræði og ég starfa á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði í dag. Ég get gert svo til hvað sem er en þarf stundum að skipuleggja dagana í kringum viðburðina og gera ráð fyrir að þurfa að takast á við þreytu á eftir. Það er mikill misskilningur að fólk með MS geti ekkert gert,“ segir María Erla Bogadóttir, lyfja- og heilsuhagfræðingur að lokum.

María Erla Bogadóttir, hér fyrir miðri mynd. Ljósmynd: Aðsend

Hjördís Ýrr segir að það hafi verið auðsótt að fá bæði fólk og fyrirtæki til liðs við félagið vegna mótsins enda sé málefnið verðugt.

„Það er þó sjálfsagt að þakka þeim sem lögðu okkur lið kærlega fyrir, bæði einstaklingunum og fyrirtækjunum – án þeirra hefði ekki mikið gerst. Þá vil ég nota tækifærið og þakka Hauki Dór Kjartanssyni stjórnarmanni fyrir að koma mótinu á koppinn og skipuleggja það frá A-Ö.“

„Þetta var dagur skemmtunar og fræðslu fyrir alla fjölskylduna en helsta markmiðið var auðvitað að vekja athygli á málefnum fólks með MS. Við vonumst til að gera mótið að árlegum viðburði,“ segir Hjördís Ýrr Skúladóttir, formaður MS-félagsins að lokum.