Public deli
Public deli

Fréttir

Flottur árangur hjá Gunnlaugi Árna á Írlandi
Logi, Gunnlaugur og Heiðar á Írlandi. Mynd/golf.is
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 21. júní 2024 kl. 10:46

Flottur árangur hjá Gunnlaugi Árna á Írlandi

Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG náði mjög góðum árangri á Opna breska áhugamannamótinu sem fram fer á Ballyliffin golfsvæðinu á Írlandi og lýkur um helgina. Gunnlaugur komst í 16 manna úrslit í holukeppninni en tapaði þar með einni holu.

Gunnlaugur tapaði fyrir Spánverjanum Marcel Fonseca í 16 manna úrslitunum. Okkar maður var tvær upp eftir fjórar holur en staðan breyttist mikið á næstu fimm brautum en Spánverjinn, fékk þrjá fugla og vann fjórar af þeim og komst síðan mest þrjár holur upp. Íslendingurinn minnkaði muninn í eina holu þegar þrjár brautir voru eftir en náði ekki að jafna á þeim.

Gunnlaugur sigraði Þjóðverjann Tim Wiedemeyer í 32 manna úrslitum á síðustu brautinnni en Þjóðverjinn er nr. 180 á heimslista áhugamanna en Gunnlaugur í 947. sæti. Okkar maður vann leikmanni frá Eistlandi í 64 manna úrslitum á lokaholunni þegar Gunnlaugur setti niður um 4 metra pútt á lokaflötinni.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Auk Gunnlaugs léku Logi Sigurðsson úr GS, Íslandsmeistari 2023 og Veigar Heiðarsson úr GA í höggleik þar sem 64 efstu komust í holukeppnina. Gunnlaugur endaði í 28. sæti á 145 höggum (+2) (72-73), Logi Sigurðsson endaði á 149 höggum (+6) (72-77), og Veigar Heiðarsson endaði á 155 höggum (+12) (76-79). Logi var síðan Gunnlaugi til halds og trausts á pokanum í holukeppninni.

Mótið er eitt af sterkustu áhugamannamótum veraldar – en það fór fyrst fram árið 1885. Margir þekktir kylfingar hafa sigrað á þessu móti og má þar nefna Bobby Jones, Sergio Garcia og José María Olazábal. Haraldur Franklín Magnús, GR, komst alla leið í 16-manna úrslit á þessu móti árið 2013.

Sýnt er í beinu streymi frá 8 manna og undanúrslitunum hér.