Fréttir

Flott frammistaða hjá Haraldi Franklín
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 14. ágúst 2022 kl. 14:50

Flott frammistaða hjá Haraldi Franklín

„Heilt yfir var þetta mjög ásættanleg niðurstaða. Það var gaman að hafa fengið tækifæri að leika á móti í efstu deildinni í Evrópu,“ sagði Haraldur Franklín Magnús en hann endaði jafn í 27. sæti á ISPS Handa World International á DP Evrópumótaröðinni í N-Írlandi. Haraldur lék lokahringinn á pari og -1 í heildina.

Mótið var á DP Evrópumótaröðinni en hluti keppenda á Challenge mótaröðinni fengu tækifæri á þessu móti þar sem margir af efstu mönnum stigalistans voru í fríi.

Haraldur lék mjög stöðugt golf allt mótið. Kom sér sjaldan í vandræði en leysti vel úr þeim ef hann gerði það. „Ég reddað mér vel úr öllum aðstæðum. Hefði mátt setja niður fleiri fuglapútt. Það er mikilvægt að nýta vel tækifærin þegar maður fær þátttökurétt á mótaröð fyrir ofan,“ sagði Haraldur sem ætlar að einbeita sér að mótum á Áskorendamótaröðinni á næstunni, Challenge Tour, en þar er hann með fullan þátttökurétt.

Haraldur heldur beint til á næsta mót sem verður í Stokkhólmi og leikur þar í næstu viku á Österåkers golfvellinum. 

Lokastaðan.

Haraldur og kylfusveinn hans í mótinu. Mynd af FB síðu Haraldar.