Fréttir

Fitzpatrick sigraði á Valderama
Fitzpatrick vann sinn sjöunda sigur á ferlinum í gær.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 18. október 2021 kl. 08:11

Fitzpatrick sigraði á Valderama

Matt Fitzpatrick vann sinn sjöunda sigur á Evrópumótaröðinni á ferlinum þegar hann sigraði á Estrella Damm Andalucia Masters á Valderama vellinum í gær.

Hann varð þar með fjórði yngsti kylfingurinn í sögu mótaraðarinnar til að ná sínum sjöunda sigri. 

Fitzpatrick lék stöðugt golf í gær, fékk 15 pör í röð en náði svo fuglum á 16. og 17. braut og endaði svo á góðu pari á 18. Skollalaus lokahringur hjá Fitzpatrick en aðeins fimm kylfingar náðu því á Valderama þessa vikuna.

Sebastian Söderberg var með pálmann í höndunum þegar hann stóð á 17. teig og tveggja högga forystu á þeim tímapunkti. Hann ýtti teighögginu út til hægri og fann aldrei boltann. Lék 17. brautina á tvöföldum skolla og 18. á skolla og varð að sætta sig við 2. sætið ásamt Ástralanum Min Woo Lee.

Laurie Canter sem hafði þriggja högga forskot fyrir lokahringinn lék á 5 höggum yfir pari og varð að sætta sig við 4. sætið ásamt 5 öðrum kylfingum.

Lokastaðan